Gæi – ,,Ég er alltaf ég sjálfur, no more – no less“

Garðar Gæi Viðarsson.

Garðar Gæi Viðarsson.

Það er óhætt að segja að Njarðvíkingurinn Garðar Gæi Viðarsson hafi skotist hratt upp á stjörnuhiminininn en þessi einstaklega hressi vörubílstjóri er einn vinsælasti snappari Íslands um þessar mundir.

Á snapchat reikningi sínum (iceredneck) leyfir Gæi fólki að fylgjast með daglegu lífi og það þykir augljóslega áhugavert því hann er með um 5 þúsund fylgjendur.

Kaffið.is fór á stjá og lék forvitni á að vita meira um þennan hressa pilt. Hver er þessi Gæi?

,,Garðar Viðarsson er 38 ára gamall, 3ja barna faðir og kærasti úr Njarðvík. Ég hef lengst af verið trailer bílstjóri og mikið verið í bílaviðgerðum og öllu tengdu bílum,“ segir Gæi í samtali við Kaffið.

Hann viðurkennir að vinsældirnar komi honum sjálfum á óvart og á erfitt með að útskýra hvers vegna hann er jafn vinsæll og raun ber vitni.

,,Þessar vinsældir koma vissulega á óvart. Ég átti aldrei von á allri þessari aðsókn þegar ég setti Snappið í gang á sínum tíma og þess þá heldur að ókunnugt fólk ætti eftir að þekkja mig á förnum vegi. Ég hef eiginlega enga ákveðna skýringu á þessu en ætli ástæðan sé ekki sú að ég er aktívur og frekar frakkur á Snapchat yfir höfuð. Ég er alltaf ég sjálfur, no more – no less.“

Gæi er hógværðin uppmáluð þegar hann er spurður að því hvernig honum líki þessi athygli og nýtilkomna frægð. ,,Á köflum hef ég gaman að henni og stundum ekki. Annars er þetta ekkert big deal dæmi. Ég er að skipta um vinnu og er spenntur fyrir framtíðinni einfaldlega vegna þess að hún er ófyrirsjáanleg, Ég veit nú ekki hversu frægur ég er eða hvort ég er frægur yfirhöfuð en ég nýti mér allt sem nýtist mér og mínum.“

UMMÆLI