,,Gæti misst eitthvað meira en körfubolta“

1452448012407123026371885817375693628783837o

Stefán Karel í leiknum afdrifaríka. Mynd: Tomasz Kolodziejski.

Eins og greint var frá í síðustu viku er Akureyringurinn Stefán Karel Torfason búinn að leggja körfuboltaskóna á hilluna, 22 ára að aldri.

Stefán Karel á fimm A-landsleiki að baki en ástæðan fyrir því að hann ákveður að hætta er sú að hann fékk þungt höfuðhögg í fyrstu umferð Dominos deildarinnar þegar hann var að leika sinn fyrsta leik með ÍR gegn gömlu félögum sínum í Snæfelli. Stefán er stór og stæðilegur miðherji og mikill baráttujaxl en þetta var í fjórða skiptið á ferlinum sem hann fær heilahristing í leik.

Rétt rúmur mánuður er nú liðinn frá leiknum afdrifaríka og segir Stefán í viðtali við Kaffið.is að hann sé enn að glíma við afleiðingar höggsins.

,,Það er svakalegur dagamunur á mér. Ég er enn með höfuðverk og almennan slappleika og það er voða skrýtið að lýsa þessu. Það mun taka tíma að ná sér að fullu.“

Stefán Karel var fluttur á sjúkrahús eftir höggið gegn Snæfelli og eyddi næstu dögum í ítarlegum skoðunum hjá læknum.

 ,,Þeir sögðu við mig að nú væri ég búinn að fá heilahristing 4 sinnum og ef ég myndi fá eitt höfuðhögg í viðbót gæti ég misst eitthvað meira en körfubolta. Það var auðvitað ömurlegt að þurfa fara út á þessum nótum en á móti kemur að ég fékk að taka þessa ákvörðun, það þurfti enginn að taka hana fyrir mig. Það tók smá tíma því þetta er ákvörðun sem ég vildi ekki taka í flýti en svo í síðustu viku var ég búinn að sætta mig við þessa ákvörðun.“

Hyggst snúa sér að kraftlyftingum

Stefán útilokar ekki áframhaldandi íþróttaiðkun þó hann sé hættur í körfuboltanum enda fjölhæfur íþróttamaður þarna á ferð. Stefán þótti liðtækur knattspyrnumaður á yngri árum og hefur einnig bakgrunn í kraftlyftingum, eins og hann á kyn til.

Faðir Stefáns, Torfi Ólafsson, er lifandi goðsögn í íslenska kraftlyftingaheiminum og reiknar Stefán með að einbeita sér að þeirri grein þegar fram líða stundir. Fyrst ætlar hann þó að klára tímabilið með félögum sínum í ÍR þó hann geti ekki hjálpað þeim inni á vellinum.

,,Ég ætla vera áfram hér í borginni. Ég er í nuddnámi og ætla að halda áfram þar Ég ætla líka að vera á bekknum hjá ÍR og styðja þá alla leið inn í úrslitakeppnina. Ég held að ég geti aldrei hætt í íþróttum alveg, þótt minn ferill í íþróttum eins og körfubolta sé liðinn. Ég ætla fara snúa mér að kraftlyftingum/aflraunum þegar heilsan er orðin betri og svo veit maður aldrei hvað á eftir að opnast fyrir manni seinna meir,“ segir Stefán að lokum.

UMMÆLI

Sambíó