Gaf Kára Stefáns kórónaveiru

Gaf Kára Stefáns kórónaveiru

Siglfirðingurinn Margrét M. Steingrímsdóttir nýtti tímann í samkomubanninu og bjó til kórónuveiru úr leir. Hún gaf Kára Stefánssyni verkið þegar það var klárað. Þetta kemur fram í grein á vefnum Trölli.is.

Þar segir að Margréti sé margt til lista lagt og að hún hafi lagt hönd á margvíslegt handverk í gegnum tíðina ásamt því að kenna það í Ólafsfirði á árunum áður. Hún flutti til Akureyrar árið 2000 og hefur verið að kenna sem stuðningsfulltrúi við Giljaskóla, áður kenndi hún textil og myndlist.

Mestmegnis hefur hún unnið glæsilegt handverk úr þæfðri íslenskri ull og hélt nokkrar sýningar á verkum sínum.

Henni var síðan ráðlagt af lækni, af heilsufars ástæðum, að leggja það á hilluna og fór hún þá að huga að öðru handverki sem hún gæti stundað.

Á meðan hún var við kennslu hafði Margrét farið á námskeið í leirgerð til að kenna börnunum og varð það úr að hún dustaði rykið af því áhugamáli og hefur unnið alfarið í leirgerð við að hanna og skapa undanfarin tvö ár í Punktinum á Akureyri.

Í kórónuveirufaraldrinum var Punktinum lokað og tók hún þá leir með sér heim til að vinna við. Þá kviknaði sú hugmynd að búa til kórónuveiru úr leir.

Vinnan við hana var heilmikil og notaði hún meðal annars sigti til að búa til angana á endunum. Í upphafi útbjó Margrét 48 anga á kúluna en fækkaði þeim síðan niður í 28 til að listaverkið fengi frekar að njóta sín.

Þegar farið var að ræða það innan fjölskyldunnar hvað ætti að gera við kórónuveiruna var lagt til að gefa Kára Stefánssyni forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar listaverkið og varð það úr.

Dóttir Margrétar, Guðný Ósk Gottliebsdóttir tók að sér að færa Kára listaverkið og var Margrét ánægð með að hann vildi þiggja það. Kári var ánægður með gjöfina.

Þess má geta að Margrét heldur úti facebook síðu Maggahannar Steingrímsdóttir, þar er hægt að skoða mikið af fallegum listmunum, og hafa samband við hana ef fólk vill fá upplýsingar.

Margrét hefur verið að vinna að listsköpun sinni í Punktinum á Akureyri og er mjög ánægð með aðstöðuna þar. Að undanförnu hafa bæjaryfirvöld haft það á stefnuskrá sinni að loka aðstöðunni. Þá tóku þeir sem hafa nýtt sér aðstöðuna sig til og mættu á alla opna bæjarstjórafundi til að vekja athygli á mikilvægi starfseminnar. Nýverið var það gefið út að starfsemin helst óbreytt næstu tvö árin að minnsta kosti.

Á vef Trölla má sjá nokkrar myndir með handverki Margrétar. 

Grein af www.trolli.is

UMMÆLI

Sambíó