Gáfu Amtsbókasafninu bjartsýnispoka

Gáfu Amtsbókasafninu bjartsýnispoka

Amtsbókasafnið á Akureyri vill gjarnan draga úr notkun á plastpokum. Undanfarið hefur safnið því meðal annars brugðið á það ráð að auglýsa eftir pokum frá almenningi. Í framhaldinu hljóp aldeilis á snærið hjá Amtsbókasafninu þegar Laugalandsskvísur, bútasaumshópur í Eyjafirði bauðst til þess að sauma taupoka handa safninu, gestum þess til handa. Blaðamaður á Kaffinu fylgdist með málinu.

Glaðlegt skvaldur og suðandi hljóð í saumvélum má heyra að Laugalandi í Eyjafjarðarsveit, þegar blaðamann ber að garði. Reisuleg byggingin, teiknuð af Guðjóni Samúelssyni húsameistara ríkisins, var upphaflega hönnuð fyrir starfssemi húsmæðraskóla. Síðar var húsið að stórum hluta endurnýjað og skipulagi þess nokkuð breytt. Þar er nú rekið meðferðarferðarheimili í umsjá Barnaverndarstofu. Í kjallara hússins eru vaskar konur úr Eyjafjarðarsveit með aðstöðu.

Í rúmgóðum salnum sitja nokkrar konur saman við borð og sauma líkt og enginn sé morgundagurinn. Önnur kona stendur álengdar og straujar. Litríkir efnisstrangar liggja á borðunum, ásamt skærum, öryggisnælum og fleiru. Hálfláraðir pokar liggja í einum bunka og tilbúnir í öðrum. Augljóst er að unnið er eftir skilvirku skipulagi í gamla húsmæðraskólanum.

Pokarnir eru vandaðir að gerð. Unnir úr gömlum en slitsterkum efnum sem eitt sinn voru ætluð í gardínur áður en tíminn úrskuðaði þau of glaðleg. Böndin eru vandlega saumuð á því pokunum er ætlað að endast. ,,Við köllum þá bjartsýnispoka‘‘ segir ein konan í hópnum. ,,Því við vonum að pokarnir veiti fleirum innblástur‘‘ bætir önnur við.

Nú eru bjartsýnispokarnir komnir á Amtsbókasafnið og hanga þar í afgreiðslunni, tilbúnir til notkunar. Safngestir geta því gripið vandaðan taupoka undir bækurnar og annað hvort haldið áfram að nota pokann eða skilað honum aftur á safnið þegar bókunum er skilað. ,,Aðalatriðið er að pokarnir verði notaðir‘‘, segir Berglind M. Valdemarsdóttir, verkefnastjóri á Amtsbókasafninu.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó