Myndlistarmaðurinn Stefán Óli Baldursson er maðurinn á bakvið nýtt vegglistaverk í Listagilinu á Akureyri. Hann segir það hafa verið frábært að fá tækifæri til þess að gera eitthvað skemmtilegt fyrir Akureyringa í samtali við Kaffið.is.
„Vinkona mín Katla spurði hvort ég gæti komið og gert eitthvað við þennan vegg sem gæti lífgað uppá hann og ég sagði bara það hlýtur að vera hægt að gera eitthvað, allt myndi vera skárra en það sem var þar fyrir,“ segir Stefán og hlær.
Verkið er á austurhlið Kaupvangsstrætis 19, þar sem Fornbókabúðin Fróði var til húsa um árabil. Það blasir því við gestum og gangandi í hjarta bæjarins. Málverkið er byggt á gömlum ljósmyndum af Akureyri.

„Innblásturinn er oft fundinn með því að gramsa í gömlum ljósmyndum og finna einhverskonar stemningu og mannlíf. Ég sá þessa mynd sem Gunnar Rúnar tók í kringum 1962 og ákvað að setja hana í lit.“
Stefán segir að honum hafi einnig langað til þess að mála bíla þar sem að gilið minnti hann á Bíladaga og fannst það því viðeigandi. Á einum bíl verksins er bílnúmerið Dire áberandi. Stefán segir það vera tilvitnun í vin sinn og kollega, Margeir Dire, sem var frá Akureyri.
Sjá einnig: Verk Margeirs Dire Sigurðarsonar endurgert
„Ég kallaði Akureyri alltaf bæinn hans Margeirs. Hann gerði mest af vegglistinni þar. Ég og hann vorum vinir og ég leit mikið upp til hans. Við deildum þessari ástríðu á vegglist og málverki. Það er gaman að geta heiðrað hann í gegnum það sem við elskuðum saman og vonandi gerði ég hann stoltan í leiðinni,“ segir Stefán Óli.
„Þessi veggur er smá trikkí þannig mig vantaði einhvað sem ég gæti látið passa þarna i kringum gluggann og svalirnar síðan bætti eg við hinu og þessu og tók út annað.“
Veggjalist Stefáns má finna víða um land, allt frá Reykjavík til Djúpavogs, en lesendur geta fundið frekari upplýsingar um verk Stefáns á Instagram síðu hans @mottandi, eða heimasíðu hans, mottan.is.


COMMENTS