Gamlar stúlkur

Gamlar stúlkur

Inga Dagný Eydal skrifar

Í morgun hlustaði ég á aldeilis frábæran þátt úr þáttaröð um breytingaskeið kvenna. Að vísu var hann endurfluttur en ég hafði greinilega misst af þessu í frumflutningi. Í hjarta mér varð ég þakklát fyrir það að til skuli vera útvarpsstöð sem lítur á miðaldra og eldri konur sem manneskjur en ekki afgangsstærð, bagga á heilbrigðisskerfinu eða eitthvað þaðan af verra. Ekki spillti það fyrir að þátturinn var bráðskemmtilegur og stútfullur af bráðgáfuðum og mögnuðum eldri konum.

Stundum hef ég nefnilega á tilfinningunni að þessi hópur sé hreinlega ekki í tísku. Eldri konur sem eru auðvitað jafn misjafnar og þær eru margar, guði sé lof, en eiga það kannski sameiginlegt að vera heldur hnarreistari en formæður okkar þótt þær hefðu auðvitað fulla ástæðu til þess líka. Þessar konur eru mikilvægar samfélaginu, eru fjárhagslega sjálfstæðar og stoltar gamlar ljónynjur. Ég upplifi þetta að minnsta kosti svona, verandi 58 ára gömul, löngu búin með mitt breytingaskeið, amma með ör og hrukkur sem tilheyra mínum aldri- en sannarlega með 18 ára sjálfsvitund eins og ég held að við höfum flest, eftir að þeim aldri er náð.

 Og það er býsna stórt í þessari 18 ára ef henni er misboðið og ekki síst ef henni finnst að ungt fólk sjái í henni konu sem ekki þurfi að taka mark á og skipti ekki máli. Miðaldra hnussið er alltaf tiltækt og engin feimni lengur yfir því að segja meiningu sína á vandaðri íslensku. Það eru kannski forréttindi okkar gráhærðu að hafa litlar áhyggjur af því hvað fólki finnst um það sem við erum og segjum, en viljum að okkur sé sýnd kurteisi og virðing. Af öllu ungu fólki í samfélaginu og ekki bara börnum og barnabörnum.

Við erum auðvitað ekkert alltaf viskan uppmáluð þrátt fyrir aldurinn, en þurfum þess auðvitað ekkert frekar en aðrir. Megum vera sérvitrar og utan við okkur án þess að glata virðingunni.

Eitt barnabarna minna segir að ég sé auðvitað tveggja ára, eins og hann og fullyrðir stoltur að ég sé ekki gömul.  Önnur ömmustelpa sagði mér um daginn þegar ég setti upp bleika glimmerhárkollu að þetta „sé eiginlega bara fyrir stúlkur” sem var hennar fallega leið til að segja mér að haga mér samkvæmt aldri. Aldri sem í hennar huga er kannski óræður en alveg örugglega ekki „stúlka”.  Hún á eftir að uppgötva að „stúlkan” innra með henni er komin til að vera og verður bara ekkert gömul ef hún fær að leika sér æfina út.

Það er mikil sjálfsvirðing fólgin í því að taka sig ekki of hátíðlega, leyfa okkur að leika okkur en gera það ekki að forréttindum þeirra sem yngri eru.  Það inniber líka að halda áfram að horfa á heiminn með augum barnsins innra með okkur, vera forvitin og alltaf fús til að læra eitthvað nýtt. Það hjálpar líka til við að viðhalda sveigjanlegum huga og sálfræðilegum liðleika sem er algjörlega nauðsynlegt að þjálfa þegar aldurinn færist yfir. Um leið og við stirðnum hugarfarslega er voðinn vís og það er mun meira aldursmerki en stirðir liðir eða vöðvar. 

Sjálfri finnst mér gott að hvíla í því að vera með 58 ár af mistökum, sorgum, bulli, hamingju og reynslu í farteskinu en vera stundum líka tveggja ára, leika með hinum krökkunum, vera ýmist gigtveik í jogging eða skvís í sparikjól og njóta þess að upplifa öll tilbrigði lífsins.

Ég er afar glöð yfir að breytingaskeiðið mitt  sé yfirstaðið og þurfa ekki að spá í barneignir, hælaskó eða hvort ég sé nógu sæt. Ég er hinsvegar marktæk og orðin mín og hugsanir skipta máli. Aldurinn sem við mælum í árum er óvéfengjanlegur en svo stjórnum við því sjálf hvort að hin innri „stúlka” fær að eiga rödd líka. Ég leyfi mér að fullyrða að lífið er litríkara með henni.

Sjálf Oprah Winfrey segir: „Við lifum í menningu sem er heltekin af æskudýrkun og reynir sífellt að telja okkur trú um að ef við séum ekki ung, ljómandi og kynþokkafull, þá skiptum við ekki máli. Ég neita að láta kerfi eða menningu eða afbakaða sýn á raunveruleikann segja mér að ég skipti ekki máli. Ég veit að aðeins með því að gangast við því hver og hvað þú ert geturðu farið að upplifa lífið til fulls .Sérhvert ár ætti að kenna okkur eitthvað dýrmætt. Hvort þú lærir eitthvað er eiginlega undir þér komið.”


Vilt þú birta grein á Kaffið.is? Sendu á okkur með því að smella hér

UMMÆLI

Sambíó