Gæludýr.is

Garðar fyrstur íslendinga á heimsmeistaramótiGarðar Darri er þjálfari hjá hnefaleikadeild Þórs, en um næstu helgi mun hann heyja bardaga þar sem ekki dugar að láta hnefana tala.

Garðar fyrstur íslendinga á heimsmeistaramóti

Akureyringurinn Garðar Darri Gunnarsson verður á næstunni fyrsti íslendingurinn til þess að keppa á heimsmeistaramóti í safnspilaleiknum Flesh and Blood. Með þáttöku á þessu móti verður hann jafnframt aðeins annar íslendingurinn til þess að keppa á nokkru stórmóti í leiknum. Mótið fer fram í ráðstefnumiðstöð í Barcelona. Verður það sett með hátíðlegri athöfn þann 16. nóvember næstkomandi og mun standa alla helgina. 17. og 18. nóvember fara svo í riðlakeppni þar sem skorið verður niður í hópnum í lok hvers dags og 8 manna úrslit fara fram sunnudaginn 19. nóvember. Verði Garðar fyrir þeirri ólukku að detta úr leik snemma á mótinu hyggst hann nýta tímann til þess að taka þátt í öðrum, smærri mótum sem eiga sér stað samtímis á sama stað.

Garðar vann sér inn þáttökurétt á heimsmeistaramótinu þegar hann endaði í öðru sæti á íslandsmóti í leiknum sem fram fór í Reykjavík á dögunum. Sjálfur hefur Garðar spilað Flesh and Blood í um það bil eitt og hálft ár, en hefur þó spilað ýmsa svipaða leiki frá unga aldri. Garðar segist vera vel undirbúinn fyrir mótið, enda er mikið í húfi. Sá sem stendur uppi sem sigurvegari á sunnudeginum mun vinna sér inn rúmlega 14 miljónir íslenskra króna í verðlaun. Þegar fréttaritari Kaffisins náði tali af Garðari var hann kominn langleiðina með það að velja spil í stokkinn sinn fyrir mótið, en þó sé hann enn að gera litlar breytingar. Þegar hann sendir á skipuleggjendur mótsins hvaða spil hann ætli að nota verður því ekki breytt og á svo stóru og mikilvægu móti er margt að vega og meta. Þegar stokkurinn er ákveðinn snýst þetta bara um að vera vel vakandi og hugsandi þegar að keppnisdegi kemur, en Garðar neitar því ekki að heppni muni líka spila einhvern þátt í úrslitunum.

Alls munu rúmlega fjögur hundruð spilarar takast á í Barcelona um næsti helgi og hafa þeir allir þurft að vinna sér inn þáttökuréttinn á einn eða annan hátt. Flestir hafa þeir orðið í efstu tveim sætunum í landsmótum í sínum eigin löndum eða sigrað önnur stórmót víða um heim. Garðar veit af alls þrem íslendingum sem verða á staðnum: Hann sjálfur, vinur hans sem kemur með til þess að styðja við bakið á honum og kona frá Reykjavík sem verður dómari á mótinu.

Flesh and Blood er, eins og áður segir, safnspilaleikur. Lesendur sem ekki þekkja til leiksins geta hugsað til aðra safnspilaleikja líkt og Magic the gathering eða jafnvel Pokémon. Spilarar kaupa pakka sem innihalda handahófskennd spil og safna þannig þeim spilum sem þeir þurfa til þess að setja saman góðan stokk til að spila með. Það eru eflaust margir lesendur sem eiga börn sem safna Pokémon (eða Yu-Gi-Oh) spilum eða söfnuðu þeim sjálfir á yngri árum. Það sem aðskilur Flesh and Blood frá slíkum spilum er að hann er nær alfarið ætlaður fullorðnum og framleiðandinn sjálfur mælir með leiknum fyrir þá sem eru 16 ára og eldri.

Flesh and Blood er frekar nýr safnspilaleikur, en hann kom fyrst út fyrir um 5 árum síðan. Samt sem áður er hann einn af stærstu leikjunum á senunni. Garðar segir þetta stafa af því að Flesh and Blood sé mjög hraður og dýnamískur í samanburði við aðra safnspilaleiki. Þar að auki séu framleiðendur leiksins mjög duglegir að styðja við spilara. Þeir bjóði stóra vinninga fyrir keppendur á mótum og séu mjög duglegir að styrkja jafnvel smærri samfélög spilara líkt og þá sem spila í Goblin hér á Akureyri.

Lesendum er bent á að á hverju fimmtudagskvöldi hittast að jafnaði tíu til tólf Flesh and Blood spilarar í búðinni Goblin við Ráðhústorg og er öllum velkomið að koma og prófa. Þorsteinn Marinoson, eigandi Goblin ehf, segir leikinn fullkominn fyrir þá sem hafa gaman af tölvuleikjum, en hafi þann kost yfir tölvuleiki að gerast í raunheiminum í góðum félagsskap. Fréttaritari Kaffisins hitti einmitt á slíkan viðburð eftir viðtalið við Garðar og þrátt fyrir að hafa enga kunnáttu á leiknum var honum mætt með opnum örmum og kennt að spila. Það má fylgja sögunni að fréttaritari Kaffisins telur sig ekki eiga fyrir sér eins glæstan Flesh and Blood feril og Garðar.

Á fimmtudagskvöldum hittast jafnt vinir sem ókunnugir í Goblin og spila saman. Nú er svo komið að þetta samfélag hefur gefið af sér einn HM-fara. Ljósmynd: Rúnar Freyr Júlíusson
Sambíó

UMMÆLI