Getum við fengið rúllustigann aftur?

Getum við fengið rúllustigann aftur?

Margir muna eftir rúllustiganum sáluga í Vöruhúsi KEA. Þessum sem flutti viðskiptavinina á milli hæða án þess að þeir þyrftu að hreyfa legg eða lið. Rúllustiginn hvíldi lúin bein aldraðra, sparaði spor miðaldra og gladdi hjörtu ungra í rúma tvo áratugi. Í febrúar árið 1987 birtist skemmtilegur óður til rúllustigans í Helgar-Degi undir heitinu Vöruhús KEA: Margir sakna rúllustigans.

Vöruhús KEA: Margir sakna rúllustigans.

Ósköp hlýtur líf æskunnar að vera fábrotið í dag. Blátt áfram litlaust. Engin ólæti á kvöldin með vatnsbombuslag og dyrabjölluati, allt of langt að hjóla upp á öskuhauga og veiða rottur, engir eltingaleikir við lögguna og síðast en ekki síst; enginn rúllustigi! Þá held ég að æska mín hafi verið blómlegri. Nú sitja börnin heima á kvöldin, glápa á sjónvarp og myndbönd, spila „speisaða“ tölvuleiki og fari þau í Kaupfélagið þá þurfa þau að ganga upp á aðra hæð. Þar er nú kominn verklegur tréstigi með allt of mörgum tröppum sem hreyfast ekkert úr stað.

Rúllustiginn var tekinn í notkun í desember 1964 og hefur lifað mun lengur en dæmi eru til um stiga af þessu tagi. Þegar rúllustiginn bilaði í desember í fyrra þótti einsýnt að hann væri allur og var hann því fjarlægður. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um kaup á nýjum rúllustiga fyrir Vöruhús KEA en óneitanlega hafði sá gamli mikið aðdráttarafl og sakna hans margir, ungir sem aldnir. Ég hvet því hlutaðeigandi að róa að því öllum árum að útvega þessar 3 milljónir sem nýr rúllustigi kostar og setja hann í stað þessa vélarvana stiga sem nú brúar hæðir Vöruhússins. En góður orðstír deyr aldregi og rúllustiginn mun ávallt lifa í minningunni, hvað svo sem framtíðin ber í skauti sér.

Stefán Þór Sæmundsson ritaði pistilinn fyrir tæpum 34 árum. Hann starfaði sem blaðamaður á Degi á árunum 1986 til 1994. Grenndargralið hafði samband við Stefán. Hann segist lengi hafa verið umsjónarmaður Helgar-Dags þar sem hann deildi alls kyns skoðunum og pistlum með lesendum blaðsins. Umfjöllunin um rúllustigann beri þess keim að hafa verið pistill í þeim anda frekar en frétt.

En skyldu undirtektir hafa verið góðar við ósk Stefáns á sínum tíma um að fjármagn yrði tryggt til kaupa á nýjum rúllustiga? Og aukinheldur, lifir rúllustiginn enn góðu lífi í minningunni?

Ég man ekki eftir að hafa fengið annað en góð viðbrögð – eða góðlátleg. Fólki þótti rúllustiginn alltaf hafa vissan sjarma en sjálfsagt var hann barn síns tíma og búið að skipuleggja annað í okkar ágæta Vöruhúsi. Þess vegna voru engar merkjanlegar undirtektir við fjársöfnun enda engin Facebook eða Karolina Fund eða annað slíkt.

Rúllustiginn lifir samt í minningunn og allt báknið sem KEA var. Amma mín, Hólmfríður Hólmgeirsdóttir, vann lengi í Vefnaðarvörudeild KEA á efri hæðinni og því fór maður alltaf upp í rúllustiganum til að heimsækja hana. Ég man að þetta var dálítið áfall að sjá á eftir flottu leiktæki sem einkenndi Vöruhúsið en líka var þetta þægileg leið til að komast á milli hæða. Fleiri af minni kynslóð voru á sömu skoðun, ákveðin eftirsjá.

Stefán segir að líta megi á rúllustigann sem tákn um blómaskeið Kaupfélags Eyfirðinga þegar myndarlegt vöruhús var rekið og fjölmargar hverfisverslanir, byggingavörudeild og fleira.

KEA átti líka drjúgan hlut í útgáfufélagi Dags og var nokkurs konar ríki í ríkinu, vinnuveitandi og vinur; margir sem minna máttu sín fengu vinnu hjá félaginu og margt gott mætti rifja upp þegar rúllustigans er minnst.

Víst er að margir sakna rúllustigans í Vöruhúsi KEA. Grenndargralið fær orð pistlahöfundar Helgar-Dags í febrúar 1987 að láni og hvetur hlutaðeigandi að róa að því öllum árum að útvega þær krónur sem nýr rúllustigi kostar og setja hann í stað þessa vélarvana stiga sem nú brúar hæðir Pennans Eymundssonar. Við höfum Facebook, við höfum Karolina Fund.

Heimildir:

Grenndargralið

Stefán Þór Sæmundsson. (1987, 6. febrúar). Vöruhús KEA: Margir sakna rúllustigans. Dagur, bls. 2.

Mynd: Minjasafnið á Akureyri. (2020). [Ljósmyndari/Höf. Gunnlaugur P. Kristinsson] Fengin af https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1520701

Sambíó

UMMÆLI