Giljaskóli verður 1:1 skóli frá 5. bekk

Giljaskóli verður 1:1 skóli frá 5. bekk

Giljaskóli mun í vetur bjóða öllum nemendum í 5. bekk og eldri upp á spjaldtölvu til afnota í skólastarfi. Giljaskóli hefur síðustu árin markvisst aukið við tæknibúnað skólans

Í tilkynningu segir að hver nemandi í 5. til 7. bekk hafi nú til umráða sinn eigin iPad og nemendur 8. til 10. bekkjar hafa hver sína Chromebook tölvu. Í 1. til 4. bekk deila tveir nemendur einum iPad.

„Við erum afar ánægð með þessa þróun hjá okkur og teljum við okkur nú hafa aukna möguleika til að mæta þörfum nemenda og stuðla að framþróun í skólastarfi,“ segir í tilkynningu.

Með spjaldtölvuinnleiðingunni gefast aukin tækifæri til að:

– einstaklingsmiða nám og mæta þörfum hvers og eins.
– auka ábyrgð og sjálfstæði nemenda í námi með hjálp tækninnar.
– nemendur birti hæfni sína á fjölbreyttan hátt.
– auka aðgengi að upplýsingum.
– efla samskipti og samvinnu með tæknilegum úrlausnum.
– útvíkka námsumhverfi nemenda.
– efla læsi í víðum skilningi. Að nemendur geti notað tæknina, fundið það sem þeir þurfa þegar þeir þurfa, geta greint upplýsingarnar, búið til efni fyrir aðra og hugað að þeirri siðferðilegu ábyrgð sem þetta flókna umhverfi krefst.

„Í Giljaskóla er mikil áhersla lögð á upplýsingatækni og er m.a. starfandi sérstakur verkefnastjóri sem stýrir uppbyggingu á stafrænni tækni ásamt því að styðja við kennara í ferlinu. Kennarar skólans hafa síðustu árin byggt upp góðan þekkingargrunn á því að nýta tækni til kennslu og náms og er það okkar trú að þetta framtak skili sér í því að við munum útskrifa okkar nemendur með þá færni sem þarf til að takast á við nám og starf í stafrænum heimi,“ segir í tilkynningu.

UMMÆLI