Gísli fékk sér grameðlu húðflúr á Mallorca: Miðjan fékk 2600 skjáskot

Miðjan: Gísli Máni og Gunnar Björn.

Gísli Máni Rósuson og Gunnar Björn Gunnarsson halda úti samfélagsmiðlamerkinu Miðjan. Strákarnir eru duglegir við að setja inn leikið efni og alvöru efni úr lífi sínu á samfélagsmiðla eins og Facebook, Instagram og Snapchat. Gísli Máni hefur undanfarna daga verið í fríi á Mallorca á Spáni en hann hefur verið duglegur að senda myndbönd frá ferðalagi sínu á Snapchat aðgang Miðjunnar.

Gísli Máni spurði fylgjendur Miðjunnar meðal annars hvernig húðflúr hann ætti að fá sér og svörin voru einróma. Gísli skyldi fá sér grameðlu húðflúr. En afhverju grameðlu? „Þetta byrjaði bara sem létt grín.“ segir Gunnar Björn félagi Gísla í Miðjunni við Kaffið. „Við vorum nýbyrjaðir aftur á Snapchat eftir langa pásu og ákváðum að hafa Q&A (spurt og svarað) þar sem við vorum komnir með marga nýja fylgjendur. Það var eiginlega ég sem festi nafnið Gísli grameðla á Gísla. Við byrjuðum á Q&A spurningu sem ég sendi sjálfur, það var enginn sem sendi hana en mér fannst það bara fyndið, spurningin var: Er Gísli grameðla? Í kjölfarið lékum við okkur aðeins með það að hann væri í raun og veru grameðla,“segir Gunnar.

Fylgjendur Miðjunnar tóku þátt í gríninu og nafnið Gísli grameðla fljótt að festast. „Ég ýtti undir það og var að biðja fólk að kommenta Gísli grameðla á myndirnar okkar á Instagram. Það voru í kringum 300 manns að kommenta þetta. Eftir allt þetta var nafnið orðið fast á honum. Ef einhver þekkti okkur úti á götu var oft kallað Gísli grameðla. Honum fannst þetta smá pirrandi fyrst en núna bara fyndið.“

Gísli var ekki spenntur fyrir því að fá sér grameðlu húðflúr en bauð fylgjendum Miðjunnar að ef að næðist að taka 2000 skjáskot á Snapchat aðgangi myndi hann kýla á það. Það voru rúmlega 2600 manns sem tóku skjáskot og Gísli þurfti því að fá sér grameðlu húðflúr. „Þetta var klikkað sko, ég sagði 2000 í djóki, hélt aldrei að við myndum ná því,“ segir Gísli.

Gísli fór með föður sínum í gærkvöldi og fékk sér grameðlu húðflúrið fræga. Miðjan sýndi frá því í beinni útsendingu á Instagram þegar Gísli fékk sér húðflúrið og einnig sýndu þeir frá því á Snapchat. Söguna sem Miðjan birti á Snapchat má sjá hér að neðan en hægt er að fylgjast með strákunum þar í gegnum notendanafnið midjan_official.

 


UMMÆLI