NTC

Gjáin milli þings og þjóðarHaraldur Ingi Haraldsson skrifar:

Gjáin milli þings og þjóðar

Eftir Harald Inga Haraldsson sem skipar fyrsta sæti Sósíalistaflokksins í Norðausturkjördæmi.

Lýðræði.  Þetta fallega gagnsæja orð.  Þýðir einfaldlega, fólkið ræður og lýðræðisskipulag á að tryggja  þjóð sem býr við það að vilji meirihlutans nái fram að ganga.   Í því fellst bæði frelsi fjöldans og sanngirni í félagslegu og efnahagslegu tilliti.   Þannig ætti vilji þjóðarinnar að endurspeglast á Alþingi þar sem að kjörnir fulltrúar hennar sitja.  Svo er ekki og það er auðsjáanlega bæði djúp, og breið gjá milli þings og þjóðar.

Fyrirsögnin er tekin úr frægum ummælum Ólafs Ragnars Grímssonar þegar hann hafnaði Icesave-samningunum á þeim forsendum að þjóðin vildi þá ekki þótt svo að ríkistjórnin væri á annarri skoðun. Þessi gjá er enn fyrir hendi og hefur aldrei verið dýpri og breiðari.

Það kemur ítrekað fram að mikill meirihluti þjóðarinnar vill ríkisrekið og gjaldfrjáls heilbrigðiskerfi.  Í nýlegri könnun vildu hvorki meira né minna en rúm 80% að sjúkrahús séu rekin af hinu opinbera og væru gjaldfrjáls.  70% vildu að heilsugæslustöðvar væru einnig reknar á þann hátt.   Einungis rúmlega 3% svarenda í könnuninni vildu alfarið einkavæðingu.

En hver er stefna Alþingis?

Þar er leikur upp úr bók hinnar lifandi dauðu nýfrjálshyggju, að frjársvelta heilbrigðiskerfið þar til að eina leiðin virðist vera einkarekstur eins og berlega kemur í ljós í sambandi við þá hörmulegu einkarekstrarvæðingu sem nú á sér stað á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri.

Eru þá þau rök gild að engir peningar séu til og það þurfi að hafa vit fyrir þjóðinni sem ekkert skilur í ríkisrekstri?  Nei og alfarið nei!  Augljósustu rökin gegn þeirri ranghugmynd eru þau að við áttum ríkisrekið og gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi sem náði um allt land og konur gátu fætt í heimabyggð en það hefur verið brotið niður af ríkistjórnum nýfrjálshyggjutíma síðustu áratuga.

Þessi dæmi eru nánast endalaus:  Til að nefna nokkur þeirra þá er mikill meirihluti Íslendinga móti einkavæðingu bankanna.  Á móti einkavæðingu í vegakerfinu með vegagjöldum og einkafjármögnun.  Á móti kvótakerfinu og þeim slæmu afleiðingum sem það hefur haft.  Mikill meirihluti Íslendinga vill alvöru auðlindaákvæði í stjórnarskrána og meirihluti vill nýja stjórnarskrá.

Almannavilja úthýst

Á Alþingi er hins vegar verið að framkvæma þveröfuga stefnu .  Þegar um 80% Íslendinga vilja ríkisrekið og gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi þá standa um 80% stjórnmálastéttarinnar með síaukinni einkavæðingu.

Þetta er gjáin milli þings og þjóðar.

Ég er sósíalisti – félagshyggjumaður – og félagi í samnefndum flokki og þessi samanburður sýnir mér ljóslega að Sósíalistaflokkurinn er jaðarflokkur meðal alþingisflokkanna en flokkur meirihlutans úti í samfélaginu. 

Sá meirihlutavilji sem ítrekað kemur fram í skoðanakönnunum endurspeglast í stefnu hans auk þess sem Flokkurinn tekur skýra afstöðu með rótækum kröfum verkalýðshreyfingarinnar sem eru stærstu fjöldasamtökin í landinu.

Við þurfum ekki bara að brúa gjána milli þings og þjóðar.  Við þurfum að leggja þjóðveg inná Alþingi þannig að þjóðin geti notið þess frelsis sem lýðræðiskipulag á að skila henni.

Þegar greidd voru atkvæði með lögum sem heimiluðu vegatolla og einkarekstur í frjálsa vegakerfinu okkar var einungis einn þingmaður sem gat staðið með frjálsa vegakerfinu og greitt atkvæði á móti þeim.   Það sýnir að svo ekki verður um villst að Sósíalistaflokkurinn er eini valkosturinn fyrir þá sem vilja berjast gegn einkavæðingu vegakerfisins og annarra innviða.


Kaffið.is fylgist með Alþingiskosningunum í haust með áherslu á Norðausturkjördæmi. Finna má fleiri greinar og annað gagnlegt efni tengt kosningunum með því að smella hér.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó