Glæsileg lokasýning Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar

Ungir leikarar leika brot úr gamanleiknum 39. Þrep
Mynd:Mak.is

Það var margt um manninn í Samkomuhúsinu fimmtudaginn 16. mars þegar fjöldi ungra leikara úr Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar undirbjó sig baksviðs fyrir lokasýningu vorannar skólans á meðan foreldrar, forráðamenn, systkini og ættingjar fylltu salinn.  Ungu leikararnir fluttu brot úr fjölda verka sem LA hefur sviðsett í gegnum tíðina. Tilefnið var ekki bara “útskrift” af vorönn 2017 heldur einnig að fagna 100 ára afmæli LA.

Þegar rauðu tjöldin  voru dregin frá birtust persónur úr mörgum perlum leikbókmenntanna. Þarna mátti sjá Línu Langsokk, Dórótheu úr galdrakarlinum í OZ ásamt ljóninu, pjáturkarlinum og fuglahræðunni. Tommi og Anna ásamt Emil í Kattholti og fjölskyldu létu einnig sjá sig. Þeir bræður Karíus og Baktus birtust og Soffía frænka lét ræningjana þrjá fá það óþvegið, tvisvar. Þeir Skugga-Sveinn og Ketill skrækur birtust á fjölunum ásamt Lykla Pétri, Kerlingunni og honum Jóni í skjóðunni.  Persónur úr ævintýrinu um Rauðhettu birtust ljóslifandi á sviðinu og síðast en ekki síst persónurnar úr 39. þrepum ásamt gjá, fossi og glúfri.

Áhorfendur skemmtu sér hið besta og voru ánægðir með framlag þessara leikara framtíðarinnar.´

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó