Gæludýr.is

Gleðilega Hinsegin daga

Gleðilega Hinsegin daga

Jódís Skúladóttir skrifar:

Á júnínóttu árið 1969 urðu vatnaskil í sögu réttindabaráttu hinsegin fólks þegar lögreglan mætti einu sinni sem oftar á barinn Stonewall í Bandaríkjunum.

Lögreglan mætti í fyrsta skipti raunverulegri andspyrnu en hópur fólks sem yfirleitt hafði stillt sér upp í röð, sýnt skilríkin og flýtt sér á braut eða gengið handjárnað um borð í lögreglubíla neitaði einfaldlega að hlýða lögreglu. Saga okkar er að sjálfsögðu jafn gömul sögu mannkyns en oft er litið á Stonewall byltinguna sem upphaf skipulagðrar baráttu fyrir mannréttindum hinsegin fólks.

Á Íslandi má rekja sögu Hinsegin daga til ársins 1999 en þá voru haldnir tónleikar á Ingólfstorgi. Margt hefur breyst í áranna rás og staða hinsegin fólks á Íslandi er með því betra sem þekkist í heiminum. En mikilvægt er þó að við sofnum aldrei á verðinum. Uppgangur öfgaafla í heiminum vekja ugg og víða hafa réttindi hinsegin fólks farið aftur að undanförnu. Nefna má að í 69 löndum er samkynhneigð bönnuð, í 10 löndum í Evrópu er þess krafist að trans fólk gangist undir ófrjósemisaðgerð og frá árinu 2019 hafa tæplega 400 trans einstaklingar verið myrtir. Ofbeldi, þöggun og jaðarsetning er raunveruleiki margra hinsegin einstaklinga árið 2021.


Þess vegna þurfum við Hinsegin daga, þess vegna megum við aldrei sofna á verðinum. Við þurfum að taka afstöðu, fagna fjölbreytileikanum með afgerandi hætti og skapa samfélag sem gefur hverri manneskju grundvöll til að lifa og starfa óháð uppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu.


Hinsegin Austurland var stofnað 29. Desember árið 2019. Félagið hefur fest sig í sessi í samfélaginu á Austurlandi, staðið fyrir viðburðum og fræðslu. Í tilefni Hinsegin daga gefur félagið nú út lag og myndband með það að markmiði að kynna fjölbreytt mannlíf á Austurlandi. Félagið stendur fyrir sölu regnbogafána þessa dagana og hvetjum við íbúa Austurlands til að fylla Austurland af regnbogum, taka afstöðu með hinsegin fólki og bjóða allar manneskjur velkomnar heim á Austurland.

Horfa má á myndbandið hér:

Hægt er að fylgjast með starfi félagsins á Instagram og facebook og hafa samband á netfangið hinseginausturland@gmail.com

Gleðilega Hinsegin daga.

Höfundur er formaður Hinsegin Austurlands og skipar annað sætið á framboðslista VG í Norðausturkjördæmi.

Sambíó

UMMÆLI