Glerárlaug til gróða?

Glerárlaug til gróða?

Karen Dögg Úlfarsdóttir Braun skrifar

Móðir mín vann í sundlaug í Reykjahlíð þegar ég var barn, og eyddi ég flestum mínum stundum annaðhvort á sundlaugarbakkanum eða kafandi í djúpinu. Sú sundlaug var, öllum að óvörum, lokuð nokkrum árum eftir að við fluttum til Akureyrar sem varð til þess að heilt sveitarfélag varð sundlaugarlaust, og fluttist t.d. skólasund á Lauga sem er um 30 mínútna keyrsla aðra leið.

Þegar ég var 19 ára byrjaði ég að vinna í Sundlaug Akureyrar ásamt mömmu, og var ég þar í sjö ár. Ég vann vaktir með skóla á veturna og svo á sumrin. Því má segja að ég hafi verið í kringum sundlaugar allt mitt líf.

Nú vinnur móðir mín í Glerárlaug, og hefur gert það undanfarin ár með hópi af góðu fólki. Ég hef eytt ágætum tíma þar í sund og spjall, og kynnst því fólki sem liggur leið sína þangað. Þetta eru oft á tíðum viðkvæmustu hóparnir, það eru eldri borgarar sem treysta sér ekki í Akureyrarlaug sem er mun stærri og með útilaugar sem ekki henta; það eru fatlaðir sem koma einmitt vegna smæðarinnar og vegna góðs aðgengis ofan í innilaugina; þeir sem eru í endurhæfingu eftir veikindi eða slys svo ekki sé minnst á barnafjölskyldurnar sem venja komur sínar seinni partinn og um helgar.

Ég vinn sjálf í einingu sem talin er vera of dýr vegna smæðar, og hef ég undanfarin þrjú ár þurft að hlusta á hvísl og pískur um að nú ætti að loka mínum vinnustað, því veit ég upp á hár hvernig sú tilfinning er.

Glerárlaug hefur oft verið eins og olnbogabarnið hjá sveitastjórn Akureyrarbæjar, og hef ég haft það á tilfinningunni að vonast sé til að yfirmenn/starfsfólk gefist upp á endanum svo léttara verði að loka. Ef enginn er eftir til að reka heila klabbið, ætti nú ekki að verða erfitt að loka, er það nokkuð?

Nokkur dæmi sem mér finnst styrkja mál mitt:

Það er leikið með opnunartíma laugarinnar, eitthvað sem ég hef aldrei séð hjá stofnun rekin af neinu sveitarfélagi. Það mætti halda að teningur sé látinn ráða ferðinni þegar opnunartími er ákveðinn.

Það var staðið hræðilega að lokun vegna framkvæmda við nýja leikskólann. Það var varla hægt að komast að lauginni vegna þessara framkvæmda svo ekki sé minnst á hversu illa var staðið að merkingum sem gerði það að verkum að erfitt var að komast að lauginni, sérstaklega fyrir hreyfihamlaða.

Svo ekki sé minnst á það að fólk sem býr á Akureyri veit ekki einu sinni af því að tvær laugar eru í bænum. Hvernig stendur á því að sundlaugin er ekki meira auglýst?

Ég er með marga punkta um hluti sem hægt væri að lagfæra og betrumbæta. Hvernig það væri hægt að byggja upp svæðið í stað þess að rífa það niður. Ef einhver hefur áhuga á að sjá þá punkta er ekkert mál að hafa samband við mig.

Og nú er komið að kosningunum sem áttu sér stað síðastliðna helgi. Akureyri kaus lýðræðislega, og meirihlutinn kaus L-listann sem fékk þrjá menn inn í stjórn. Akureyringar skoðuðu kosningaloforð, fóru og hittu frambjóðendur og ákváðu, lýðræðislega, hvern við vildum við stjórnvölinn í okkar bæjarfélagi.

Ég ætla ekkert að fabúlera neitt um það að fylgi þeirra hafi verið svona mikið vegna stöðu þeirra til Glerárlaugar, en ætla samt að leyfa sjálfri mér að hallast að því. Ég fylgdist vel með kosningum, sérstaklega vegna þess að sundlaugin er mér ekki bara kær heldur vegna þess að það er stór hluti fólks sem fer í hana ekki einungis vegna vilja heldur þarfa. Og Það er búið að líta framhjá þessum stóra hóp af fólki, fólki sem oft á tíðum hefur engin önnur tækifæri til hreyfinga. Og hver er ástæðan? Er hún sú að þessir hópar borga minna til laugarinnar vegna ýmissa ástæðna, hvort sem það er aldur eða örorka? Er þeirra heilsa metin minna heldur en heilsa þeirra sem borga fullt verð inn í Akureyrarlaug? Erum við í alvöru að meta heilsu fólks til fjárs?

Nú er komið í ljós að afkoma bæjarins var mun meiri en áætlað var, mun meiri, og því er það mér enn og aftur óskiljanlegt hvernig 18 milljóna króna rekstur á heilli sundlaug ásamt pottum og mannhaldi, geti sett svona mikið skarð í pyngjuna að það sé ekki hægt að halda henni opinni fyrir þá hópa sem hana sækja. Það hafa miklar framkvæmdir verið gerðar í bænum á síðastliðnum árum sem mætti flokka undir óþarfa, ég ætla ekki að minnast á neitt hér, og að halda stofnun opinni sem stuðlar að hreysti og heilsu íbúa ætti ekki að vera svona neðarlega á listanum, á eftir hlutum sem hafa lítið sem ekkert notagildi.

Kosning síðastliðinnar helgi leiddi það sterklega í ljós að íbúar voru ekki ánægðir með þá stjórn sem sat við borðið, og hafa ekki verið það í langan tíma. Það er kominn tími til að fólk í bæjarstjórn geri sér grein fyrir því að þeir starfa með umboð frá kjósendum, fyrir kjósendur. Það á ekki að gleymast um leið og hurðin að fundarherberginu er lokað.

Einn flokkur (Framsókn) af þeim sem nú eru í stjórnarviðræðum kom seint og um síðir inn í umræðuna um Glerárlaug, á meðan einn listi (L-listinn) var búinn að vera með þetta mál framarlega alla sína kosningabaráttu.

Allir flokkar segjast þó vera með málefni eldra fólks og fatlaðra ofarlega á lista hjá sér. Ég vil fá að sjá röksemdarfærslur þeirra sem ætla sér að mynda nýja bæjarstjórn hvernig hægt sé að hafa þessi málefni í farabroddi án þess að horfa til Glerárlaugar.

Við sem þekkjum til vitum að Glerárlaug er fullkomið krónublað í blómakórónuna sem á að vera fjölskyldubærinn Akureyri.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó