Guðbjörn Hólm gefur út sína fyrstu smáskífu

Guðbjörn Hólm gefur út sína fyrstu smáskífu

Tónlistarmaðurinn Guðbjörn Hólm gaf út smáskífuna BEAR&CITY á dögunum en Guðbjörn er meðlimur í hljómsveitinni GRINGLO sem hefur verið að gera það gott á Akureyri undanfarin ár.

Þetta er fyrsta sólóplata Guðbjarnar en hann vann plötuna að mestu leyti sjálfur. Í kjölfar þess að skrá sig í nám í tónlistarskólanum á Skapandi braut varð platan til segir Guðbjörn.

„Ég ákvað að ég myndi sjá um öskrin, raddirnar og hljóðfæraleikinn alfarið sjálfur þar sem ég veit hve erfitt getur verið að samræma tíma sinn og annarra. Ég vildi gera þetta hratt og örugglega og sá um upptökurnar líka nánast alveg sjálfur, fékk samt smá aðstoð góðra vina þar sem er gulls ígildi,” segir Guðbjörn en vinur hans, Ásgeir Helgi Þrastarson, aðstoðaði hann við mix og mastering plötunnar. „Hann tók verkefnið að sér sem hleypti lögunum algjörlega upp á æðra stig í gæðum og erum við hæstánægðir með útkomuna.”

Átti fullt af frumsömdu efni sem var gleymt og grafið

Guðbjörn segir að kveikjan að smáskífunni hafi verið þegar hann skráði sig í nám í tónlistarskólanum á Skapandi braut þar sem hann lærði söng, raddtækni, tónfræði og skapandi hljóðvinnslu.

„Ég var engan veginn klár á því hverju ég ætlaði fyrst og fremst að sinna enda hafði ég alveg nóg með vinnuna, fjölskyldulífið, æfingar og hljómsveitarstarfið og plötuútgáfu með Gringlo. Ég skráði mig engu að síður, algjörlega óviss um að hafa tíma fyrir þetta allt. Óvissan breyttist samt fljótlega þegar ég fór að ræða málin við kennara skólans og kom til tals að ég átti slatta af frumsömdu efni sem legið hafði óklárað og grafið í möppum tölvunnar um langa hríð. Þessi lög voru ansi langt komin í huga mínum og höndum á sínum tíma en þó nokkur vinna eftir til að koma þeim í eitthvað áheyrilegt form og því hafði ég ekki komið mér í að klára þau, eiginlega bara gefist upp á þeim. Það var því mikil hvatning að skrá mig til leiks og stefna að nýjum markmiðum. Ég fylltist eldmóði, var með músíkina á heilanum alla daga eins og ég var áður en allt annað í lífinu fór að ryðja sér til rúms og hafði þarna tækifæri og aðstöðu til að gera það sem gefur mér einna mesta lífsfyllingu – að skapa,“ segir Guðbjörn.

Margar hindranir á veginum að plötunni

Mikið hefur gengið á í lífi Guðbjörns frá því að hann hóf vinnu að plötunni en hann veiktist af heilahimnabólgu fyrir ári síðan og jafnaði sig ekki fyrr en nokkrum mánuðum seinna. Auk þess keypti hann ásamt fjölskyldu sinni íbúð, sem þau tóku í gegn sjálf rétt áður en Guðbjörn hóf mastersnám í Háskólanum á Akureyri. „Plötunni seinkaði því töluvert en kom loks út þann 8. nóvember síðastliðinn undir nafninu BEAR&CITY sem er líka nafnið á þessu projecti mínu. Við siglum ekki alltaf lygnan sjó og ég hef lengi sagt að stundum megi líka sækja sér styrk í myrkrinu. Mikilvægt er þó að vinna úr hlutunum og fær ljósið alveg líka að skína í gegn. Þau eru mér því mjög kær og er stórum kafla í mínu lífi lokið með þessari plötu. Ég fékk algjöra útrás við að koma henni frá mér en veit vel að þessi tónlist er ekki allra. Ég held samt að flestir geti fundið eitthvað þarna sem þeir tengja við, þó ekki væri nema bara að fá útrás eða lyfta þyngra.“

Vill vera fyrirmynd dóttur sinnar

Á plötunni eru fimm lög, eitt millispil og endir (outro). Viðfangsefni þeirra eru þungir tímar í lífi Guðbjörns og upplifun hans af umhverfinu, samfélaginu og náttúrunni á einskonar skáldlegan og aggressívan hátt eins og kannski má heyra. Þau eru mótuð af sterkum tilfinningum, erfiðleikum og áföllum segir hann í samtali við Kaffið. „Þó ég hafi að mestu gert þetta einn á ég mörgum að þakka dygga aðstoð þeirra en mesti og innsti drifkrafturinn er eflaust að eiga mína yndislegu dóttur. Hún veitti mér þann innblástur að vera sá sem ég er, gera það sem veitir mér fyllingu og nýta hæfileika mína til að setja mark mitt á heiminn því þannig vil ég að hún geti séð sjálfa sig í framtíðinni. Ég vil auðvitað vera fyrirmynd hennar og sýna henni hve miklu má áorka með því að gefa allt sem maður á í það sem maður hefur trú á. Það er nefninlega mun meira en maður oftast heldur.

Hægt er að hlusta á plötuna á Spotify.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó