Guðmundur Ármann heldur fyrsta Þriðjudagsfyrirlestur ársins

Guðmundur Ármann heldur fyrsta Þriðjudagsfyrirlestur ársins

Þriðjudaginn 24. janúar kl. 17-17.40 heldur Guðmundur Ármann Sigurjónsson, myndlistarmaður, fyrsta Þriðjudagsfyrirlestur ársins undir yfirskriftinni Galdurinn í þrykkinu. Þar mun hann fjalla um upphaf grafíkur á Íslandi og hvenær fjölföldun hófst á myndum eftir höfunda sem vinna þær í myndmót. Einnig ræðir hann stöðu grafíkur í dag. Enginn aðgangseyrir er á fyrirlesturinn. 

Guðmundur Ármann Sigurjónsson hefur starfað sem myndlistarmaður síðan hann lauk háskólanámi frá listaháskólanum Valand í Gautaborg í Svíþjóð árið 1972. Hann hefur haldið yfir 25 einkasýningar og tekið þátt í fjölda alþjóðlegra samsýninga. Hann hóf kennsluferil sinn sem aðstoðarkennari í grafíkdeild Valand listaháskólans en lauk honum vorið 2014 eftir að hafa kennt við listnámsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri í 14 ár. Árið 2012 lauk hann meistaranámi við Háskólann á Akureyri í kennslugreinum myndlistar og fjallaði lokaritgerðin um sjónmenningu og listnámskennslu við framhaldsskóla í Svíþjóð og á Íslandi. 

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Gilfélagsins, Menntaskólans á Akureyri, og Myndlistarfélagsins á Akureyri. Aðrir fyrirlesarar vetrarins eru Elfar Logi Hannesson, leikari, og Marsibil G. Kristjánsdóttir, myndlistarkona, Agnes Ársælsdóttir, myndlistarkona, Stefán Þór Sæmundsson, rithöfundur og íslenskukennari, Marta Nordal, leikhússtjóri, Andrea Weber, myndlistarkona, Einar Sigþórsson, arkitekt, og Hyo Jung Bea, myndlistarkona.

UMMÆLI

Sambíó