Gunnar og Elma í forystu L-ListansMynd: Skapti Hallgrímsson

Gunnar og Elma í forystu L-Listans

Gunnar Líndal Sigurðsson skipar efsta sæti L-Listans á Akureyri fyrir kosningar í vor. Elma Eysteinsdóttir er í öðru sæti listans.

Gunnar er með B.Sc. gráðu í Iðnaðarverkfræði og MBA nemi. Hann starfar sem forstöðumaður rekstrardeildar Sjúkrahússins á Akureyri og hefur einnig starfað sem handknattleiksþjálfari hjá KA/Þór og í Noregi.

„Ég hef mikinn áhuga á að nýta reynslu mína af rekstri, stjórnun og stöðugum umbótum til að bæta og styrkja rekstur Akureyrarbæjar. Bættur rekstur skapar svo aftur aukið svigrúm til að efla þjónustu bæjarins á sviði menntunar, íþrótta og félagsmála. Ég hef líka mikinn áhuga á að efla atvinnulíf á svæðinu með samstarfi við fyrirtæki í iðnaði, ferðaþjónustu og upplýsingatækni, svo dæmi sé tekið.“ 

Elma er ÍAK einkaþjálfari og húsmóðir og fyrrverandi landsliðskona í blaki. Hún sinnir meðal annars íþróttaþjálfun barna og unglinga og einnig leikfimi fyrir 60 ára og eldri á Bjargi.

„Akureyri er frábær og við getum gert bæinn okkar ennþá betri með að efla félagslega virkni barna og ungmenna í gegnum íþrótta- og tómstundastarf og við getum líka gert meira til að efla lýðheilsu almennings og ekki síst eldri borgara með að stuðla að hreyfingu, félagsstarfi og heilbrigðum lífsstíl,“ segir hún.

Í næstu sætum listans eru núverandi bæjarfulltrúar L-Listans, Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar í þriðja sæti og Andri Teitsson formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar í fjórða sæti. 

Halla Björk Reynisdóttir segist vera hæstánægð með að L-listinn hafi fengið þau Gunnar og Elmu til liðs við sig.

„Ég er hæstánægð að við skulum hafa fengið til liðs við L-Listann þetta sterka og metnaðarfulla fólk sem Gunnar og Elma eru. Þau hafa bæði sýnt það í verki að þau eru kjarkmikil og árangursdrifin og eiga auðvelt með að vinna með öðru fólki. L-Listinn teflir fram sterkri blöndu af ferskleika og reynslu með því að við tvö sem erum sitjandi bæjarfulltrúar rýmum til fyrir nýju fólki í efstu sætum. Við hjá L-listanum erum stolt af okkur verkum á þessu kjörtímabili sem er að ljúka og förum full bjartsýni inn í kosningabaráttuna.“

Listi fólksins bauð fyrst fram í bæjarstjórnarkosningum á Akureyri 1998 og hefur átt bæjarfulltrúa allar götur síðan. Listinn náði þeim sögulega árangri í kosningunum 2010 að fá sex menn kjörna og hreinan meirihluta; það hefur engu öðru framboði tekist, hvorki fyrr né síðar.

Nöfn annarra frambjóðenda en fjögurra efstu verða tilkynnt síðar.

UMMÆLI

Sambíó