Hæfileikar unga fólksins á Akureyri fá að njóta sín

Hæfileikar unga fólksins á Akureyri fá að njóta sín

Vala Fannell skrifar:

Það er óhætt að segja að í LMA sé til staðar ákveðið kraftaverk þar sem tekst að miðla reynslu áratuganna sem félagið hefur starfað á milli ára og fagmennskan, einbeitingin og metnaðurinn vex og dafnar með hverju árinu. Heathers er enn ein fjöðurinn í nú þegar stórbrotinn hatt félagsins.

Það er ákaflega ánægjulegt að sjá félagið velja sér verkefni sem stendur þeim eins nærri og Heathers. Söngleikurinn gerist í menntaskóla í Bandaríkjunum og þar birtast okkur jú þessar steríótýpur sem við þekkjum, vinsælu stelpurnar sem stjórna skólanum, fótboltastrákarnir með alla sínu eitruðu karlmennsku, lúðarnir og allt þar á milli. En þó býr söngleikurinn yfir mun dýpri sögu en yfirborðið gefur til kynna og tekur okkur í töluvert aðra átt en lagt er upp með. Vinátta, ást, uppeldi, samskipti, framtíðin og dauðinn eru tekin fyrir en einnig gildi og mótun þeirra sem er jú eitthvað sem ég held að við flest tökumst á við á menntaskólaárunum. Hvað skiptir raunverulega máli. Hver stóra myndin er.

Í þessari uppfærslu eru þau í LMA algjörlega ófeimin við að kanna alla þessa ólíku þætti og sýningin stendur sterkum fótum á þori og hæfileikum allra sem koma að. Leikhópurinn er gríðarlega sterkur sem heild og sönghæfileikar þeirra bera af. Danshópurinn er sterkur og eiga danshöfundar hrós skilið fyrir vel útfærð hópatriði sem styrkja söguna án þess þó að stela fókus eða taka yfir. Leikmyndin er einföld en vel úthugsuð og þjónar sýningunni gríðarlega vel þar sem söguþráður og persónur fá að vera í fyrirrúmi. Búningarnir eru stílhreinir og skýrir og skapa fallega heild. Hljómsveitinn á skilið gríðarlegt hrós þar sem sýningin er sneisafull af tónlist. Það eru eiginlega undur og stórmerki að tónlistarstjórar sýningarinnar séu unglingar. Að útsetja þessa tónlist og í þessu magni, æfa upp hljómsveit og söngvara og stýra lifandi bandi í leiksýningu er töluvert meira en að segja það. En þessu skila þær af algjörri fagmennsku.

Skipinu var stýrt í höfn af Elísabetu Skagfjörð sem leggur sýninguna fallega, sagan flæðir vel og athygli áfhorfandans er teymd með stöðugri hönd í gegnum margslungna sögu sem oft reynir á taugarnar. Það var ákaflega gaman að sjá traust leikstjóra á hópnum þar sem hún gaf hverjum og einum rými til að skína á sama tíma og hún fléttaði saman af lipurð öllum þeim litlu sögum sem saman skapa heildina.

Heathers er frábær sýning þar sem hæfileikar unga fólksins á Akureyri fá að njóta sín á öllum þeim ólíkum sviðum sem leikhúsið bíður uppá. Ég hvet alla til að ná sér í miða á þessa sýningu sem gleður en í senn skilur eftir sig svo ótal margt til umhugsunar.

Takk fyrir mig og til hamingju LMA!

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó