Hættu þessari vitleysu Inga!

Hættu þessari vitleysu Inga!

anxiety-charlie-brownÞað er ýmislegt sem hægt er að skamma úr sjálfum sér ef svo ber undir. Ég er reyndar að reyna að læra að tala fallega við sjálfa mig en stundum þarf ég samt að hvessa mig, eins og þegar ég er búin að misþyrma sama laginu of lengi með ýmsum óþolandi söngútgáfum, eða dett í að endursegja allar leiknar auglýsingar sem ég man eftir.

Ef ég er of grimm við mig, stoppar maðurinn minn mig stundum af, með því að segja mér að hann leyfi ekki að einhver sé vondur við konuna hans, og það er svo sem ágætis vitleysa bara og áminning.

Eitt er það sem mér gengur þó illa að skamma úr mér þrátt fyrir góðan vilja og margar tilraunir og það er kvíði. Og nú er ég ekki að tala um þann algenga misskilning að kvíði sé bara það að kvíða fyrir einhverju. Við erum reyndar mis-viðkvæm hvað það varðar, sumir hafa mikla tilhneigingu til að hafa áhyggjur af hlutunum fyrirfram á meðan aðrir geta blessunarlega slakað í núinu. Að hafa áhyggjur af því ókomna er jú stundum eins og að taka tvisvar út sömu vanlíðan yfir einhverju sem gæti farið illa, fyrst fyrirfram og svo þegar það raunverulega gerist. Ef það gerist. Áhyggjur eru nauðsynlegur drifkraftur á stundum en oft óþarfar og úr takti við tilefnið.

Nei ég er að tala um sjúklegan kvíða sem er háður allt öðrum forsendum. Kvíða sem er yfirleitt ekki það að kvíða fyrir neinu sérstöku og er engan vegin tengdur neinni rökhugsun.. Hann virðist eiga upptök sín í ósjálfráða taugakerfinu og lýsir sér með einkennum þaðan en ekki í hugsun, allavega ekki meðvitaðri hugsun. Hann kemur oftast án fyrirvara og er þá bara snögg tilfinning um eitthvað slæmt, eitthvað yfirvofandi, líkist ofsahræðslu og þá fylgir hraður hjartsláttur, oföndun og ýmis líkamleg óþægindi.

Þó eru aðstæðurnar oft bara þær að opna augun og vakna inn í daginn, vera að keyra á milli staða eða eitthvað álíka hversdagslegt og lítið kvíðavekjandi. Oft líður þetta hjá af sjálfu sér, sérstaklega ef ég næ að setja athyglina hreinlega á eitthvað annað og stundum þarf ég að setjast niður og taka fyrir öndunina, ná tengslum við taktinn í sjálfri mér og þá bráir af mér.

Tengingin er sterk við fjölmenna staði, leikhús, bíó, tónleika og stórmarkaði og þá heitir það félagsfælni- skilst mér. Ég er jú alltaf að læra. Ég á erfitt með að hringja í fólk, hef mig illa í mannfagnaði og það er jú alltaf átak að fara og hitta aðra,- eins og mér finnst fólk frábært !

Svo er það kvíðinn sem byrjar sem nagandi tilfinning, eirðarleysi sem er eiginlega eins og verkur en er ekki líkamlegur verkur. Hann getur magnast upp í það að verða óþolandi og þá fækkar bjargráðunum. Á þessum stundum get ég skilið þá sem ekki geta lifað með sínum kvíða- þá sem líður alltaf eins og mér þegar mér líður verst.

Sannarlega var ég ekki alltaf svona. Ég hef sjálfsagt alltaf verið ansi áhyggjufull, sem fylgir gjarnan þeim misskilning að manni megi ekki mistakast, en það er bara allt önnur Ella. Mín kvíðaröskun er seinni tíma vandi og ég man hversu fegin þegar ég gerði mér grein fyrir því að ég væri haldin sjúklegum kvíða,- ég væri þá ekki geðveik! Hljómar undarlega en ég hafði að minnsta kosti minni fordóma fyrir kvíðagreiningu en ímyndunarveiki.

Kvíði er ekki sérlega vinsamlegur förunautur, hann rænir mann orku og kröftum og kemur í veg fyrir að maður njóti fyllilega alls þess sem lífið hefur upp á að bjóða. Það er þó hægt að ná við hann sátt, bera fyrir honum ákveðna virðingu en ögra honum þó mátulega. Það er fín lína, þetta með að ögra kvíðanum, stíga varlega út úr þægindahringnum en vera tilbúinn að stökkva inn í hann aftur. Maður þarf nefnilega að geta farið í gegnum dagana sína með reisn, stundað hreyfingu, húsverk, samskipti, jafnvel einhverja vinnu og þá er betra að fara ekki yfir strikið.

Enginn skyldi ennframur álykta svo að lífið geti ekki verið gott með kvíðanum, oftast er dásamlegt að vera til, það er bara öðruvísi en áður og það þarf að læra á nýjar reglur og ný viðmið. Ég veit að ég deili þessum kynnum með svo ótalmörgum sem hafa náð góðum tökum á þessu samlífi og ég læri endalaust af þeim. Takk!

anxiety-girl1

UMMÆLI

Sambíó