Hafa safnað 9,3 milljónum fyrir Garðinn hans Gústa

Hafa safnað 9,3 milljónum fyrir Garðinn hans Gústa

9,3 milljónir króna hafa nú safnast fyrir Garðinn hans Gústa, körfuboltavöll við Glerárskóla. Garðurinn hans Gústa er verkefni sem nokkrir vinir Ágústar H. Guðmundssonar standa að. Þegar völlurinn er full kláraður fær Akureyrarbær völlinn afhentan í nafni Ágústar.

Hægt hefur verið að spila körfubolta á þessum glæsilega útikörfuboltavelli síðan í nóvember en til viðbótar stendur til að reisa veglega þriggja hæða áhorfendastúku, reisa minnisvarða, setja upp ljós o.s.frv. en slíkt verður gert í vetur og vor. Völlurinn verður svo formlega afhentur Akureyrarbæ í sumar þegar allt verður klappað og klárt.

„Í lok janúar settum við okkur það markmið að jafna vítahittni Larry Bird yfir ferilinn (88,6%). Við höfum nú gert það og gott betur, enda hefur söfnunin tekið góðan kipp síðustu vikuna. Samkvæmt nýjustu tölum hafa safnast 9,3 milljónir fyrir Garðinn hans Gústa! Þetta samsvarar 93% árangri og jafnar þar með bestu vítahittni Larry Bird, sem var tímabilið 1989/90. Kærar þakkir öllsömul sem hafa látið af hendi rakna á einn eða annan hátt,“ segir í tilkynningu frá aðstandendum verkefnisins á Facebook.

Næsta markmið er að ná 100% eða 10 milljónum. ️Við hvetjum alla aflögufæra að láta af hendi rakna til þessa samfélagsverkefnis. Reikningsnúmer Garðsins hans Gústa er 0302-26-000562 og kennitala er 420321-0900.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó