Prenthaus

Hafdís og Nökkvi eru íþróttafólk Akureyrar árið 2022Mynd: Þórir Ó. Tryggvason

Hafdís og Nökkvi eru íþróttafólk Akureyrar árið 2022

Knattspyrnumaðurinn Nökkvi Þeyr Þórisson úr KA er íþróttakarl Akureyrar árið 2022 og hjólreiðakonan Hafdís Sigurðardóttir úr HFA er íþróttakona Akureyrar 2022. Í öðru sæti voru þau Baldvin Þór Magnússon frjálsíþróttamaður úr UFA og Aldís Kara Bergsdóttir listhlaupkona úr SA. Í þriðja sæti voru þau Óðinn Þór Ríkharðsson handboltamaður úr KA og Rut Jónsdóttir handboltakona úr KA/Þór.

Kjöri íþróttamanns Akureyrar 2022 var lýst á verðlaunahófi á vegum Íþróttabandalags Akureyrar og fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar sem fram fór í Menningarhúsinu Hofi í kvöld 24.janúar.

Alls bárust 27 tilnefningar frá 9 aðildarfélögum ÍBA til íþróttakarls og íþróttakonu Akureyrar árið 2022, 15 íþróttakonur og 12 íþróttakarlar. Úr þeim tilnefningum var svo kosið á milli 10 karla og 10 kvenna sem stjórn Afrekssjóðs hafði stillt upp.

Á athöfninni veitti fræðslu- og lýðheilsuráð Akureyrarbæjar viðurkenningar til 13 aðildarfélaga ÍBA vegna 215 Íslandsmeistara á síðasta ári og Afrekssjóður veitti 10 afreksefnum styrki. Samtals hlutu 20 einstaklingar afreksstyrki fyrir samtals rúmar 5 milljónir á athöfninni í kvöld/gær.

Nökkvi Þeyr er íþróttakarl Akureyrar í fyrsta sinn. Nökkvi Þeyr er uppalinn knattspyrnumaður hjá Dalvík. Árið 2022 skoraði hann hvorki meira né minna en 17 mörk í 20 leikjum fyrir KA í deild þeirra bestu sem og nokkur mörk í bikarkeppninni. Hann endaði sem markahæsti leikmaður deildarinnar þrátt fyrir að missa af síðustu 7 leikjum tímabilsins eftir að draumur hans um atvinnumennsku rættist er hann gekk til liðs við KV Beerschot í Belgíu í byrjun september. Í lok tímabilsins var hann valinn í lið ársins þar sem hann var markahæsti leikmaðurinn, besti sóknarmaðurinn og að lokum var hann einnig valinn besti leikmaður deildarinnar bæði af sérfræðingum sem og leikmönnum/þjálfurum deildarinnar. Með framgöngu sinni vann Nökkvi Þeyr sér inn sæti í A landsliði karla í knattspyrnu á árinu 2022 og spilaði hann sinn fyrsta A landsleik núna í janúar 2023. Þá var Nökkvi Þeyr einnig valinn Íþróttakarl KA árið 2022.

Hafdís Sigurðardóttir er ein fremsta hjólreiðakona Íslands í dag. Hún átti sitt besta keppnistímabil árið 2022 og stóð uppi sem tvöfaldur Íslandsmeistari og bikarmeistari, bæði í götuhjólreiðum og tímatöku í A flokki kvenna. Hafdís var valin til að keppa fyrir Íslands hönd á EM í Þýskalandi,  bæði í götuhjólreiðum og tímatöku. Þar lagði Hafdís sig alla fram og var með frábæran tíma í tímatökunni og hjólaði síðan tæpa 90 km í  í hrikalega erfiðri og hraðri keppni götuhjólreiða. Hafdís er farin að reyna fyrir sér í öðrum greinum og keppti hún á Íslandsmótinu í criterium og lenti þar í öðru sæti. Þá keppti hún einnig á Íslandsmótinu í cyclocross og lenti þar í þriðja sæti. Hafdís fór til Svíþjóðar í júlí og keppti þar í Postnord U6 og endaði þar í fjórða sæti. Hún var í lok tímabilsins valin hjólreiðakona Íslands hjá HRÍ og hjólreiðakona HFA fyrir keppnisárið 2022.

Á athöfninni voru afhentar fjórar heiðursviðurkenningar frá fræðslu- og lýðheilsuráði Akureyrar fyrir vel unnin störf í þágu íþrótta á Akureyri.
Þau sem hlutu þær voru:

  • Páll Jóhannesson Þór
  • Herbert Bárður Jónsson
  • Þormóður Einarsson
  • Sigríður Jóhannesdóttir KA

Þetta er í 44. sinn sem íþróttamaður Akureyrar er kjörinn en það var fyrst gert árið 1979. Alls hafa nú 28 einstaklingar hlotið þetta sæmdarheiti, oftast allra júdókappinn Vernharð Þorleifsson, sjö sinnum alls.

Íþróttamenn Akureyrar 1979-2021:

1979             Gunnar Gíslason, handknattleikur og knattspyrna
1980             Haraldur Ólafsson, lyftingar
1981            Haraldur Ólafsson, lyftingar
1982            Nanna Leifsdóttir, skíði
1983            Nanna Leifsdóttir, skíði
1984   Halldór Ómar Áskelsson, knattspyrna
1985   Guðrún H. Kristjánsdóttir, skíði
1986   Freyr Gauti Sigmundsson, júdó
1987   Halldór Ómar Áskelsson, knattspyrna
1988   Guðrún H. Kristjánsdóttir, skíði
1989   Þorvaldur Örlygsson, knattspyrna
1990   Valdemar Valdemarsson, skíði
1991   Rut Sverrisdóttir, sund
1992   Freyr Gauti Sigmundsson, júdó
1993   Vernharð Þorleifsson, júdó
1994   Vernharð Þorleifsson, júdó
1995            Vernharð Þorleifsson, júdó
1996            Vernharð Þorleifsson, júdó
1997            Ómar Halldórsson, golf
1998            Vernharð Þorleifsson, júdó
1999            Vernharð Þorleifsson, júdó
2000            Ingvar Karl Hermannsson, golf
2001            Vernharð Þorleifsson, júdó
2002            Dagný Linda Kristjánsdóttir, skíði
2003            Andreas Stelmokas, handknattleikur
2004            Rut Sigurðardóttir, Tae Kwon Do
2005            Guðlaugur Már Halldórsson, akstursíþróttir
2006            Dagný Linda Kristjánsdóttir, skíði
2007            Dagný Linda Kristjánsdóttir, skíði
2008            Rakel Hönnudóttir, fótbolti
2009            Bryndís Rún Hansen, sund
2010            Bryndís Rún Hansen, sund
2011            Bryndís Rún Hansen, sund
2012            Arna Sif Ásgrímsdóttir, knattspyrna
2013             Hafdís Sigurðardóttir, frjálsar íþróttir
2014   Hafdís Sigurðardóttir, frjálsar íþróttir
2015            Viktor Samúelsson, kraftlyftingar
2016            Viktor Samúelsson, kraftlyftingar
2016   Bryndís Rún Hansen, sund
2017             Tryggvi Snær Hlinason, körfuknattleikur
2017             Stephany Mayor, knattspyrna
2018             Viktor Samúelsson, kraftlyftingar
2018             Hulda B. Waage, kraflyftingar
2019             Viktor Samúelsson, kraftlyftingar
2019             Aldís Kara Bergsdóttir listhlaup
2020             Viktor Samúelsson, kraftlyftingar
2020             Aldís Kara Bergsdóttir, listhlaup

2021             Brynjar Ingi Bjarnason, knattspyrna

2021    Aldís Kara Bergsdóttir, listhlaup
2022   Nökkvi Þeyr Þórisson, knattspyrna

UMMÆLI