Háskóladagurinn stafrænn annað árið í röð

Háskóladagurinn stafrænn annað árið í röð

Stafrænn háskóladagur verður haldinn 26. febrúar kl. 12-15. Þá gefst áhugasömum  tækifæri til að kynna sér allt háskólanám sem er í boði á landinu á einum vettvangi.

Á vefsíðunni www.haskoladagurinn.is gefst einstakt tækifæri til að leita í öllum námsleiðum sem eru í boði í íslenskum háskólum.

Nemendur, kennarar, náms- og starfsráðgjafar og starfsfólk allra háskóla landsins verða tilbúnir til að spjalla við gesti dagsins í netspjalli. Það verður hægt að komast í beint samband við fulltrúa frá öllum námsleiðum í grunnnámi háskólanna og um að gera að nýta tækifærið og spyrja um hvaðeina sem lítur að draumanáminu og eiga samtal um námsleiðirnar og háskólalífið.

Líkt og í fyrra var tekin ákvörðun um að halda daginn ekki með hefðbundnum á hætti á staðnum heldur stafrænan. Er það gert í ljósi ástandsins í samfélaginu. Með þessu móti er hægt að bjóða öllum áhugasömum í netspjall við starfsfólk háskólanna og tryggja aðgengi fyrir öll þau sem hafa áhuga á að kynna sér úrvalið hjá íslensku háskólunum.

„Við erum rosalega ánægð með virkni leitarvélarinnar á síðunni enda er þetta í fyrsta skiptið á Íslandi þar sem áhugasömum um háskólanám gefst tækifæri til að leita að námi í öllum háskólum landsins,“ segir Sigrún Einarsdóttir, verkefnastjóri Háskóladagsins.

Það er von skipuleggjenda Háskóladagsins að áhugasamir nýti sér tækifærið og skoði vandlega það flotta úrval námsleiða sem íslenskir háskólar hafa uppá að bjóða.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó