Hefja sölu á áfengi í Hlíðarfjalli

Hefja sölu á áfengi í Hlíðarfjalli

Áfengissala hófst í Hlíðarfjalli um helgina. Hægt verður að kaupa bjór, kakó með rommi, prosecco, hvítvín hússins (chardonnay) og rauðvín hússins (shiraz) á veitingastaðnum á hótelinu í Hlíðarfjalli. Þá verður seldur bjór og kakó með rommi á veitingastaðnum upp í Strýtu.

Ekki má fara með áfengi út af skíðahótelinu um helgina en von bráðar verður sett upp svæði þar sem má neyta áfengis á skaflinum við nestishúsið. Við Strýtuna má fara með áfengið út á pall, en alls ekki í brekkurnar.

„Við biðjum alla að hjálpa okkur að sjá til að þessi nýjung fari vel af stað. Það eru allskonar reglur sem við þurfum að uppfylla, og það er aðeins gerlegt ef allir hjálpa okkur við það og fara eftir fyrirmælum starfsfólks. Einnig er mikilvægt að ekkert ónæði skapist og að sjálfsögðu eru allar COVID reglur ennþá í gildi,“ segir í tilkynningu þar sem fólk er einnig minnt á að skilríki eru nauðsyn ef ætlunin er að kaupa áfengi.

Tekið skal fram að veitingarrekstur í Hlíðarfjalli hefur verið boðinn út og því er það ekki Skíðasvæðið sjálft sem sér um sölu á áfengi.

UMMÆLI