Prenthaus

Heildarkostnaður við endurbætur á Sundlaug Akureyrar meiri en upphaflega var reiknað með

Sundlaug Akureyrar

Heildarkostnaður við endurbætur á Sundlaug Akureyrar mun verða meiri en áætlað var upphaflega. Þetta kemur fram á vef RÚV. Áætlað er að heildarkostnaður við endurbætur á Sundlaug Akureyrar verði um 380 milljónir króna, samkvæmt nýrri stöðuskýrslu um verkefnið.

Upphaflega var áætlað að heildarkostnaður framkvæmdanna yrði um 270 milljónir króna. Um þessar mundir er verið að vinna á fullu við endurbæturnar og er áætlað að þrjár rennibrautir verði opnaðar í byrjun júli. Rennibrautirnar eru komnar upp og nú er verið að vinna í því að klára upphitaðann uppgönguturn, nýja heita og kalda potta og lendingarlaug.

„Þegar við unnum fjárhagsáætlunina áttum við eftir að fara í útboð. Þegar tilboðin lágu fyrir sáum við að kostnaðurinn yrði meiri og heildarkostnaðurinn við framkvæmdina sjálfa er 330 milljónir. En það sem hefur bæst við heildarframkvæmdina er að við höfum þurft að fara í vaðlaugina, skiptum um yfirborðsefni þar og bættum við leiktækjum,“ segir Ingibjörg Ólöf Isaksen, formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar í samtali við Jón Þór Kristjánsson fréttamann RÚV.

Hún talar einnig um að þegar farið sé í framkvæmdir á gömlum svæðum þá geti þær orðið kostnaðarsamar. Hún er þó sannfærð að þegar framkvæmdum ljúki verði Sundlaug Akureyrar orðið eitt glæsilegasta sundlaugarsvæði landsins. Nánar er fjallað um málið á vef RÚV.

UMMÆLI