Héraðsdómur skikkar KA til að greiða Arnari tæpar 11 miljónir

Héraðsdómur skikkar KA til að greiða Arnari tæpar 11 miljónir

Héraðsdómur Norðurlands kvað upp dóm í gær vegna stefnu Arnars Grétarssonar á hendur KA. Hefur KA verið dæmt til að greiða Arnari 8,8 miljónir króna auk dráttarvaxta. Þar að auki ber KA að greiða málskostnað Arnars sem nemur um 2 miljónum króna. 433.is greindi fyrst frá.

Arnar var þjálfari KA þar til árið 2022 þegar hann færði sig til Vals þar sem hann þjálfar enn í dag. Árið 2023 stefndi Arnar liðinu vegna ógreiddra bónusa vegna árangurs KA í forkeppni Sambandsdeildar UEFA, sem hann taldi sig eiga rétt á samkvæmt starfssamningi. Var niðurstaða Héraðsdóms sú að Arnar ætti rétt á bónusnum. Vísir hefur dóminn undir höndum og hefur birt samningsákvæðið sem deilt var um:

„Tryggi KA sér þátttökurétt fær þjálfari sem nemur 10% af allri þeirri fjárhæð sem félag fær greitt frá UEFA vegna þátttöku í Evrópukeppni. Þetta á eingöngu við það fjármagn sem er vegna leikjanna, en nær ekki til ferðagreiðslna eða þeirra greiðslna sem eru óháðar leikjum í Evrópukeppni.“

Deilan snérist að hluta um það hvort að Arnar hafi talist þjálfari liðsins þegar KA tryggði sér sætið, en hann var settur í einhliða leyfi sem þjálfari í síðustu fimm deildarleikjum sumarsins. Héraðsdómur féllst ekki á að leyfið afsalaði rétti Arnars á bónusum. Einhliða leyfið kom til vegna samningsviðræðna sem Arnar stóð í við Val og vildu lögmenn KA meina að viðræðurnar teldust trúnaðarbrestur á samningi. Féllst Héraðsdómur ekki á að um trúnaðarbrest væri að ræða.

Einnig snéri deilan að því hvort að Arnar ætti rétt á 10% af þeirri fjárhæð sem KA öðlaðist með því einu að vinna sér inn þáttökurétt í Evrópukeppni, eða hvort að Arnar ætti rétt á tíunda af öllum greiðslum UEFA til KA, líka þær sem unnust vegna árangurs í keppninni sjálfri. KA hélt því fyrra fram en Arnar því seinna og var Héraðsdómur sammála Arnari:

„Að mati dómsins er ekkert í orðalagi ákvæðisins sem rennir stoðum undir þann skilning stefnda að rétturinn takmarkist við greiðslur vegna fyrstu umferðar Evrópukeppninnar. Þvert á móti er sérstaklega tekið fram að 10% skuli vera af allri þeirri fjárhæð sem félagið fái greitt fyrir þátttöku í keppninni. Verður það ekki skýrt á annan veg en að þar sé átt við heildargreiðslur UEFA til félagsins fyrir þátttöku í keppninni.“

Enn getur KA áfrýjað málinu en ekki liggur hvort það verði gert. Nánari upplýsingar er að finna í fréttaskýringu frá Vísi.

Sambíó

UMMÆLI