Múlaberg

Hertar sóttvarnaráðstafanir á tjaldsvæðum AkureyrarFrá tjaldsvæðinu á Hömrum. Mynd: Akureyri.is

Hertar sóttvarnaráðstafanir á tjaldsvæðum Akureyrar

Hertar samkomutakmarkanir vegna Covid-19 sem tóku gildi um helgina hafa mikil áhrif á starfsemi tjaldsvæða Akureyrarbæjar og getu þeirra til að taka á móti gestum. Viðbúið er að færri gestir komist að en vilja á Hömrum á næstunni og er mikilvægt að fólk sýni því skilning. Þetta kemur fram á vef bæjarins í dag.

„Rekstraraðilar tjaldsvæðanna á Akureyri leggja sig fram við að fylgja þessum reglum í hvívetna og hefur svæðinu á Hömrum því verið skipt í nokkur sóttvarnarými. Mikil ásókn hefur verið í útivistarsvæðið á Hömrum í sumar og hefur fjöldi gesta dvalið á tjaldsvæðinu að undanförnu auk þess sem heimamenn á öllum aldri hafa notið þeirrar afþreyingar sem svæðið hefur upp á að bjóða,“ segir í tilkynningu frá bænum.

Gefnar hafa verið út leiðbeiningar fyrir tjaldsvæði í tengslum við sóttvarnareglurnar sem fela meðal annars í sér að hvert svæði má taka við 75% af hámarksfjölda og ef fjöldi fer yfir 200 manns skal skipta svæðinu í sóttvarnarými. Eitt salerni er lágmark fyrir hvert rými og skal enginn samgangur vera á milli þeirra.

„Breyttar aðstæður nú hafa hins vegar í för með sér aukið álag á starfsfólk sem vill í senn taka vel á móti gestum, tryggja öryggi og fylgja hertum reglum. Umsjónarmenn tjaldsvæðanna biðla einnig til íbúa bæjarins og gesta sem ekki dvelja á tjaldsvæðinu að velja frekar önnur svæði til að njóta úvistar en þau sem tilheyra Hömrum meðan þetta ástand varir. Vert er að geta þess að á Akureyri eru fjölmörg framúrskarandi útivistar- og leiksvæði. Má til dæmis nefna Kjarnaskóg, í næsta nágrenni Hamra, þar sem er nóg pláss og auðvelt að halda góðri fjarlægð.“

Tjaldsvæðið á Hömrum var fullt um helgina og ekki tekið á móti fleiri gestum en í tilkynningu á Facebook í dag kom fram að það hefði losnað páss. Á Hömrum er tekið á móti 800 gestum samtals og börn fædd 2016 og síðar eru ekki talin með. Á tjaldsvæðinu við Þórunnarstræti er hægt að taka á móti 200 gestum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó