Hjóla frá Kaupmannahöfn til Parísar fyrir styrktarfélag krabbameinssjúkra barna

Hjóla frá Kaupmannahöfn til Parísar fyrir styrktarfélag krabbameinssjúkra barna

Margir ráku eflaust augun í hóp gulra syngjandi hjólreiðamanna kringum Akureyri um helgina.  Hér var á ferð hópur fólks sem ætlar að hjóla í sumar frá Kaupmannahöfn til Parísar til styrktar SKB (styrktarfélag krabbameinssjúkra barna).

Þetta er í fyrsta skipti sem Ísland er með í þessu samnorræna góðgerðarstarfi.  Team Rynkeby var stofnað árið 2002 þegar 11 hjólreiðamenn sem tengdust Rynkeby Foods ákváðu að hjóla til Parísar til að sjá lok Tour de France og gáfu eftir ferðina fé til styrktar krabbameinssjúkum börnum í Odinsé og var það byrjunin á þessari hefð.

Í dag samanstendur Team Rynkeby af 1.700 hjólreiðamönnum og 450 aðstoðarmönnum sem skiptast í 44 lið frá Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Noregi, Færeyjum og frá Íslandi.

Team Rynkeby erum með þrjú aðalmarkmið

  • Safna peningum fyrir styrktarfélag krabbameinssjúkra barna
  • Koma okkur í það gott form að við getum hjólað til Parísar (1300 km)
  • Að hafa gaman, styðja hvort annað og liðið í að ná okkar markmiðum

Tveir liðsfélagar eru búsettir á Akureyri og var því ákveðið að hafa æfingahelgi í nágrenni Akureyrar.  Helgin tókst mjög vel og allir kvöddu með bros á vör og með þreytt læri.

Á laugardeginum var hjóluð fjögurra ganga leið í gegnum Strákagöng til Siglufjarðar, Héðinsfjarðargöng vestari og eystri og Múlagöng. Svarfaðardalshringunum var bætt við áður en haldið var til Akureyrar.

Á hvítasunnudag var brunað í Mývatnssveitina, hjólað hring um vatnið og svo til Akureyrar.

Hjólatúrinn á annan í hvítasunnu var hafður styttri því flestir áttu eftir að keyra suður.  Þá var hjólaður Eyjafjarðarhringinn og endað svo á brekkunni góðu upp í Hlíðarfjall.

Samtals voru þetta um 300 km.

Nánari upplýsningar má sjá á http://www.team-rynkeby.is/ og facebooksíðunni: Team Rynkeby Ísland.

UMMÆLI