Þriggja daga hjólabrettanámskeið fyrir krakka á öllum aldri á vegum Albumm.is og Mold Skateboards í samstarfi við Sjoppuna Vöruhús og Listasumar á Akureyri fer fram á Akureyri dagana 27- 29. júní kl 10:00 – 12:00 á útisvæðinu hjá Háskólanum á Akureyri. Námskeiðin hafa slegið rækilega í gegn á þeim tveimur árum sem þau hafa verið haldin og ekkert lát virðist vera á vinsældum þeirra. Nú er röðin komið að Akureyri og ríkir gríðarleg spenna fyrir námskeiðinu.
Líkt og á fyrri námskeiðum er það hjólabretta og tónlistarmaðurinn Steinar Fjeldsted sem sér um kennsluna en hann hefur um þrjátíu ára reynslu af hjólabrettum, hefur tekið þátt í fjölda keppna bæði hér á landi og erlendis og verið viðloðinn brettanámskeiðum í um fimmtán ár.
Honum til halds og trausts verða tveir af helstu hjólabrettaköppum landsins.
Farið verður yfir öll helstu grunnatriði hjólabrettaíþróttarinnar eins og t.d. ýta sér, hvernig á að standa, snúa við, líkamsstöður, Ollie (hoppa) svo fátt sé nefnt. Fyrir þau sem eru örlítið lengra komin verður farið í ögn flóknari hluti eins og t.d. Kickflip, Shovit og jafnvel 360 flip.
Á námskeiðinu er hjálmaskylda en einnig eru allir hvattir til að koma með sín eigin bretti.
Námskeiðið hefst stundvíslega kl 10:00 og stendur til kl 12:00. Kennt verður þrjá daga; þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag og kostar námskeiðið 10.000 kr. fyrir öll þrjú skiptin.
Skráning er hafin á albumm@albumm.is og þáttökugjald er 10 þúsund krónur. Hér má sjá allar upplýsingar um námskeiðið.
Nafn og kennitala barns þarf að fylgja skráningu og sími og nafn foreldris.
UMMÆLI