Hjólarar ársins hjá HFA

Hjólarar ársins hjá HFA

Í gærkvöldi voru hjólarar ársins hjá Hjólreiðafélagi Akureyrar útnefndir, bæði konur og karlar í götu- og fjallahjólreiðum. Félagið hefur gríðarmarga öfluga hjólara innan sinna raða, sem sést best á því að félagsmenn voru iðulega á verðlaunapöllum í mótum sumarsins.
Götuhjólreiðakona ársins er Hafdís Sigurðardóttir, sem varð í fjórða sæti á stigalistanum í bikarmótaröð HRÍ, þriðja sæti á Íslandsmeistaramótinu í götuhjólreiðum og sigraði bæði tímatökumótið á Hjólreiðahelgi Greifans og Tour De Ormurinn.

Götuhjólreiðamaður ársins er Orri Einarsson, sem sigraði örugglega á öllum bikarmótum sumarsins og þar með sjálfa bikarmótaröðina í Mastersflokki 60+ og var auk þess ávallt með fremstu mönnum af öllum þeim sem kepptu í Mastersflokkum. Orri var auk þess nálægt því að hampa Íslandsmeistaratitli í Mastersflokki en var dæmdur úr leik á lokametrunum fyrir ólöglegan endasprett. 

Fjallahjólreiðakona ársins er Emilia Niewada, sem var sigursæl í ár eins og undanfarin ár. Hún sigraði bikarmót fjallabruni í Vífilsstaðahlíð í sumar og varð önnur í Skálafellskeppninni, en endaði í 3. sæti á heildarstigalistanum. Hún varð Íslandsmeistari í fjallabruni á Hjólreiðahelgi Greifans og sigraði auk þess á Haustfögnuði Enduro Iceland og Enduromótið á Hjólreiðahelgi Greifans.

Fjallahjólreiðamaður ársins er Bjarki Sigurðsson, sem varð Íslandsmeistari í fjallabruni á Hjólreiðahátíð Greifans. Hann varð auk þess í 2. sæti í Enduromótunum hjá Vestra á Ísafirði og á Hjólreiðahelgi Greifans, og fjórði á Haustfögnuði Enduro Iceland. Þá varð Bjarki annar í Townhill á Hjólreiðahelgi Greifans. 

HFA óskar hjólreiðafólki ársins til hamingju með árangurinn og sömuleiðis öllum þeim sem kepptu undir merkjum félagsins á þessu keppnisári!


UMMÆLI