Hjóluð niður um hábjartan dagSigríður Jóhanna Jósepsdóttir skrifar:

Hjóluð niður um hábjartan dag

Ég hef ekki skrifað í fjölmiðla frá því að ég var ung kona og blöð voru lesin, en ekki bara skönnuð með símum eða skellt beint í kattasandinn eins og gengur og gerist í dag. Því er ég afar þakklát fyrir að kaffið.is skuli hafa veitt mér þetta pláss til þess að vekja athygli á því sem mér finnst ábótavant, nú eða vel gert hérna í heimabænum mínum Akureyri.

Frá Reykjavík heyrir maður ekki talað um annað en hjólareiðafólk sem mér þykir orðið ansi plássfrekt í umferðinni. En svo er það sem maðurinn minn kallar hjólreiðifólk, sem er fólkið sem er reitt yfir hjólreiðafólkinu og því að það sé yfir höfuð í umferðinni. Mér finnst þetta nú dæma sig nokkurn veginn sjálft, þó þetta fólk sé að sprikla þetta þá er það að fara til útlanda tvisvar, þrisvar í mánuði, svo öll jákvæð umhverfisáhrif og hjálp við kolefnissporið verða að engu – hreinn hégómi. En eftir situr pirringurinn sem þetta fólk veldur. Mér finnst það nú segja allt sem segja þarf að hér á Akureyri voru 3 hjól í kringum 1950. Tvö þeirra voru brúkuð af bréfberum, en það þriðja, sem var eina frístundahjólið, var í eigu andlega vanheilsmanns.

Samt státum við Akureyringar okkur af þessum fína hjóla og hlaupastíg meðfram Pollinum. Þess ber þó að gæta að þar er engin akreinaskipting milli hjólandi og gangandi/hlaupandi umferðar og því afar hættulegt að fara þar um. En verra þykir mér það sem ég heyri frá vinkonu minni um að bæjaryfirvöld séu svo ánægð með eigin eyðslusemi að þau ætli að láta byggja aðra svona brú yfir ekki neitt nær flugvellinum. Ég vona að það verði ekki, nóg annað er við peningana að gera!

Lenti í hroðalegu atviki – hjóluð niður um hábjartan dag

En það sem er mest aðkallandi er þó að taka á hraðanum á göngustígnum! Það þarf að setja upp skilti með hámarkshraða fyrir bæði gangandi og hjólandi umferð, að öðrum kosti getur fólki vitað hversu hratt það má fara og stefnt bæði sjálfu sér og öðrum hættu. Sjálf segi farir mínar ekki sléttar og íhuga málaferli þess vegna. Ég var á gangi á göngustígnum í mesta sakleysi, en gætti þess þó að fara ekki of hratt, þegar ég heyri hjólreiðarmann nálgast mig aftan frá. Ég stífna öll upp, maðurinn er greinilega á alltof miklum hraða og það versta af öllu er að dinglar ekki einu sinni til þess að láta mig vita að hann er að nálgast. Svona framkoma er ólíðandi og það varð að gera manninum ljóst að hann væri að skapa hættu fyrir alla. Ég byrja að baða út höndunum og öskra, en hann var auðvitað með einhverja nabba í eyrunum og heyrði ekki neitt. Ég greip því til þess neyðarúrræðis að sparka út í loftið um leið og hann þaut framhjá mér, með þeim afleiðingum að fóturinn á mér flæktist í dekkinu. Ég féll auðvitað kylliflöt og mannhelvítið og hjólið lentu ofan á mér. Ég er á þynnandi lyfjum svo blóðið flæddi út um allt, en sem betur fer kom fólk þarna fljótt að sem hringdi á sjúkrabíl og hélt aftur af hjólafantinum sem úthrópaði mig með fúkyrðum. Ekki var hann að bæta ímynd hjólreiðarfólks með framkomu sinni þennan dag. Hann bað mig ekki einu sinni afsökunar!

Sigríður Jóhanna Jósepsdóttir
Aðsendur pistill

UMMÆLI

Sambíó