KIA

Hlaupa til styrktar Minningarsjóðs Baldvins Rúnarssonar

Hlaupa til styrktar Minningarsjóðs Baldvins Rúnarssonar

Í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka þann 24. ágúst næstkomandi munu vinir og fjölskylda Baldvins Rúnarssonar hlaupa til styrktar Minningarsjóðas hans. Smelltu hér til að styrkja þá sem hlaupa.

Baldvin Rúnarsson fæddist á Akureyri 15. janúar 1994. Hann lést á heimili sínu 31. maí 2019 eftir rúmlega fimm ára baráttu við krabbamein í höfði.

Tilgangur minningarsjóðs Baldvins er að halda minningu hans á lofti og styrkja einstaklinga, hópa eða félög á sviði íþrótta- og mannúðarmála í anda Baldvins. Baldvin var mikill íþróttamaður og harður Þórsari. Baldvin ólst upp í Þór og lék með félaginu upp alla yngri flokka. Síðustu árin sín starfaði hann sem þjálfari yngri flokka félagsins. Hann lék knattspyrnu þangað til veikindin fóru að herja á hann og lék síðan með Magna í 3. deildinni sumarið 2014 auk leikja í undirbúningsmótunum fyrir tímabilið 2015. 

Þegar þetta er skrifað eru 15 einstaklingar og einn hópur sem munu hlaupa til styrktar Minningarsjóðs Baldvins og nú þegar hefur safnast hátt í ein milljón.

Nokkrir vinir Baldvins munu hlaupa í hópnum Vaktin en sá hópur hefur safnað yfir 700 þúsund krónum þegar þetta er skrifað. Á síðu hópsins á vef Reykjavíkurmaraþonsins segir:

„Baldvin Rúnarsson vinur okkar féll frá 31.maí síðastliðinn, eftir um 5 ára baráttu við krabbamein. Baldvin var virkur í íþróttastarfi með Þór frá unga aldri en þurfti að leggja skóna á hilluna vegna veikinda. Baldvin tók sjálfur þátt í Reykjavíkurmaraþoninu fyrir 3 árum og fór hann létt með hálfmaraþon þrátt fyrir veikindi sín.Í kjölfar andláts Baldvins var stofnaður minningarsjóður sem er ætlaður til að styrkja einstaklinga, hópa eða félög á sviði íþrótta- og mannúðarmála. Því höfum við vinirnir tekið okkur saman og ætlum að hlaupa til styrktar Minningarsjóðs Baldvins Rúnarssonar og heiðra um leið minningu góðs vinar okkar sem fór frá okkur allt of snemma.“

Hægt er að styrkja þá aðila og hópa sem hlaupa fyrir Baldvin með því að smella hér.

UMMÆLI