Hlið við hlið með eina sýningu á Akureyri

Hlið við hlið með eina sýningu á Akureyri

Sýningin Hlið við hlið sem hefur slegið í gegn í Gamla bíói í Reykjavík kemur til Akureyrar með eina sýningu í Hofi 30. október næstkomandi. Hlið við hlið er fjörugur söngleikur með lögum Friðriks Dórs sem allir ættu að kannast við, og er því frábært skemmtun fyrir alla unnendur leikhúss og tónlistar. Í leikhópnum er meðal annars Akureyrarvinurinn Kristinn Óli Haraldsson (Króli), en allur hópurinn er mjög spenntur að fá að sýna á Akureyri.

Höskuldur Þór Jónsson leikstýrir verkinu, en hann ásamt Berglindi Öldu Ástþórsdóttur skrifaði handrit sýningarinnar. Með þeim er úrvalslið ungs fólks í leikhúsgeiranum, bæði í leikhópnum og framleiðslu, sem setti þessa sjálfstæðu sýningu saman á atvinnustigi. Berglind og Höskuldur skrifuðu söguna og fléttuðu lögum Friðriks Dórs inn í handritið með góðum árangri, enda hefur sýningin fengið góða dóma. Þetta er nýr íslenskur söngleikur með lögum þjóðþekkts listamanns, og því áhugavert verkefni. Friðrik Dór er löngu orðinn þjóðþekktur listamaður, en hann skaust upp á stjörnuhimininn árið 2009 þegar hann gaf út lagið Hlið við hlið, sem naut vægast sagt mikilla vinsælda. Fjórum plötum síðar og hvern stórsmellinn á fætur öðrum, öðlast lögin hans nú nýtt líf á leikhússviðinu. Söngleikurinn ber lög frá öllum hans tónlistarferli til þessa dags, bæði nýleg lög sem og eldri.

Sýningin fjallar um borgarstrákinn Dag sem fer að vinna á sveitahóteli þar sem allt er eins og það hefur verið árum saman. En koma hans á hótelið virðist þrýsta á öll tengslin innan hótelsins að þolmörkum – skyndilega er sem öll fjölskyldutengsl, sambönd og vinskapir hanga á bláþræði.

Söngleikurinn er búinn að vera í skrifum hjá Höskuldi og Berglindi í rúmlega eitt og hálft ár, en æfingar á honum hófust síðastliðið sumar. Stífar æfingar áttu sér stað í júní, júlí og ágúst, en fresta þurfti frumsýningu vegna skyndilegra samkomutakmarkana vegna kórónuveirufaraldursins. Sýningin var loks frumsýnd í 200 manna samkomubanni 27. ágúst í Gamla bíói. Síðan þá er búið að sýna 12 sýningar og hefur selst upp á þær allar.

Höskuldur leikstýrði og skrifaði söngleikinn Ðe Lónlí Blú Bojs sem sýndi í Bæjarbíói í Hafnarfirði og um allt land árið 2019, og fékk góðar viðtökur. Þetta er því annað verkið sem hann skrifar og leikstýrir, en hann hefur einnig starfað sem dansari í Borgarleikhúsinu, nú síðast í Bubba Morthens söngleiknum Níu líf. Berglind er sjálf að stunda leikaranám við Listaháskóla Íslands og sækir reynslu sína m.a. frá RÚV. Aðrir leikendur sýningarinnar eru Jón Svavar Jósepsson, óperusöngvari og dansari frá Borgarleikhúsinu, Kolbeinn Sveinsson, söngvari í hljómsveitinni SZK, Katla Njálsdóttir, leik- og söngkona úr We Will Rock You í Háskólabíói og Er ég mamma mín? í Borgarleikhúsinu, Helgi Valur Gunnarsson, leikari úr söngleikjum Verzló á borð við Með allt á hreinu og Saturday Night Fever, Kristinn Óli Haraldsson, eða Króli, söngvari, Agla Bríet Bárudóttir, leik- og söngkona úr Gaflaraleikhúsinu og hljómsveitinni Karma Brigade og síðast en ekki síst Ingi Þór Þórhallsson, leikari og söngvari úr sýningunni Ðe Lónlí Blú Bojs o.fl. Í framleiðsluteyminu eru svo Máni Huginsson, sýninga- og framleiðslustjóri, Karla Kristjánsdóttir, aðstoðarleiktjóri, Diljá Pétursdóttir, leikgervahönnuður, Snorri Beck Magnússon, tónlistarstjóri og Hekla Nína Hafliðadóttir, búningahönnuður. Og svo að sjálfsögðu: Friðrik Dór Jónsson, tónlistarhöfundur.

Hópurinn er með nokkrar tengingar til Akureyrar, en Jón Svavar aldursforseti leikhópsins er fæddur þar og uppalinn. Svo hefur Kristinn Óli Haraldsson, einnig leikari í sýningunni, leikið fyrir leikfélag Akureyrar sem Tóti tannálfur í sýningunni Benedikt búálfur. Framleiðsluteymið hefur alltaf komið til Akureyrar með sýningar því það hefur mikinn áhuga á menningarlífi Akureyrar sem það telur sterkt og heillandi. Þeim finnst Akureyri vera mikil menningarborg og segja Akureyringa mega vera stolta af sterku leikhúslífi þar á bæ.

Sýningin er laugardaginn 30. október og miðasala fer fram á https://www.mak.is.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó