NTC netdagar

Hugsanleg ofþjálfun

Hugsanleg ofþjálfun

Nýverið fann ég til í lærinu og fór til læknis. Hann skoðaði umræddan líkamshluta en fann ekkert athugavert svo ég blimskakkaði á hann augum og spurði hvort ekki gæti hugsanlega verið um ofþjálfun að ræða.

Læknirinn skáblíndi á mig öðru auganu og svaraði tvíræður á svip að það væri svo sem ekki útilokað.

Ég ákvað að una þeim úrskurði þótt læknirinn bætti því við, að nýafstaðin vigtun þar á stofunni gæfi ekki annað til kynna en að ég hefði enn töluvert svigrúm til að létta mig og hann sæi þar að auki ekki ástæðu til að grípa til beinna aðgerða gegn hugsanlegri ofþjálfun minni.

Ég lýg sumsé nánast engu þótt ég beri lækninn minn fyrir því, að ég þjáist af ofþjálfun.

Hugsanlega.

Um leið og sá dómur var upp kveðinn fór ég að huga meðferðarúrræðum.

Til að vinda ofan af svona hastarlegri ofþjálfun þarf auðvitað öfluga afþjálfun.

Þegar ég kom heim frá lækninum lagðist ég því upp í sjónvarpssófann með gos og snakk og hreyfði mig ekki úr honum þangað til ég stóð upp til að skrifa þessar línur.

Þá var ég búinn að horfa á allar seríurnar af Prison Break og viti menn:

Ég hef aldrei verið betri í lærinu.

Sambíó

UMMÆLI