„Húsið er svo lélegt að þjálfarar annarra liða vilja varla leggja það á leikmenn sína að spila þar “


Eins og við greindum frá áðan hefur körfuknattleiksmaðurinn, Tryggvi Snær Hlinason samið við spænsku meistarana í Valencia. Í kjölfar þeirra frétta skrifaði körfuboltaþjálfarinn Bjarki Ármann Oddsson, fyrrum þjálfari Tryggva ansi áhugaverða færslu á Facebook-síðu sína.

Í færslunni sem við við fengum leyfi til þess að birta hrósar Bjarki fyrrum lærisvein sínum mikið og því starfi sem unnið er hjá körfuknattleiksdeild Þórs þrátt fyrir aðstöðuleysi. Færslu Bjarka má sjá í heild hér að neðan.

Glæsilegur árangur hjá mínum manni. Hver hefði trúað því að fyrir rúmlega þremur árum síðan þurfti þáverandi þjálfari hans að skjótast af drengjaflokksæfingu, sem þegar var byrjuð, til að ná í drenginn á næstu bensínstöð. En Tryggvi hafði villst á leið sinni á sína fyrstu æfingu þar sem hann fann ekki íþróttahúsið. Nú er sami drengur búinn að skrifa undir hjá ACB liði og ekki bara einhverju ACB liði.. heldur Spánarmeisturunum!

Tryggvi hefur ekki bara líkamlega yfirburði til að skara fram úr í sinni íþrótt, heldur hógværð, viljan til að læra, kappsemi, drifkraft og stærra hjarta en flest allir sem koma nálægt íþróttum. Mikið verður gaman að koma til Valencia og skella sér á leik. Gangi þér alveg rosalega vel úti og hvernig sem fer verður þetta án efa mikið ævintýri!

Vefmiðillinn 641 orðar þetta snilldarlega: „641.is óskar Trygga Snæ Hlinasyni til hamingju með samninginn, en hann er alveg örugglega fyrsti Bárðdælingurinn til að gerast atvinnumaður í körfubolta og einnig fyrsti Bárðdælingurinn til að gerast atvinnumaður í boltaíþrótt yfir höfuð.“ 

Fyrst að þetta er hvort sem er orðið af langloku, langar mig að vekja athygli á starfinu sem fram fer hjá Körfuknattleiksdeild Þórs. En körfuboltinn hefur nú ekki beinlínis verið fyrirferðamesta íþróttagreinin á Akureyri, en á þessu ári er félagið núna búið að skila Norðurlandameistaratitli félagsliða í hús (ekki Stokkhólmur 3 milljónir íbúa, ekki Helsinki 2 milljónir og ekki Kaupmannahöfn 1,2 milljónir) heldur Akureyri 18.000 íbúar. SEM OG leikmanni í (arguably) top 30 klúbb í heiminum (NBA included).

Og brandarinn sjálfur, aðalíþróttahús körfuboltans og þar sem uppbyggingarstarfssemin fer fram: Íþróttahús Glerárskóla!!!

Ekki misskilja mig, ég elska Glerárskóla, nánast búið að vera mitt annað heimili í mörg ár. En handónýtt gólf og handónýtar körfur er búið að vera frekar þreytt síðan ég byrjaði að venja komur mínar þangað árið 1996. Húsið er svo lélegt að þjálfarar annarra liða (ungra drengja) vilja varla leggja það á leikmenn sína að spila þar.

Nú mæli ég um og legg svo til að á Glerárskóla verði lagt parket og nýjar körfur hengdar upp!

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó