Hvað með að máta aðrar? 

Hvað með að máta aðrar? 

Suma daga er maður fullur af orku, innblæstri og tilbúinn að sigra heiminn. Aðra daga er depurðin ráðandi og þá getur verið erfitt að sinna grunnþörfum. Manneskjan er tilfinningavera og tilfinningarnar fara bæði upp og niður. Auðvitað er enginn sem segir að það sé ánægjulegt að upplifa erfiðar tilfinningar. Aftur á móti er það fullkomlega eðlilegt og þurfum við einfaldlega að þekkja aðferðir til að takast á við þær á heilbrigðan hátt. 

Þó það sé ekki óvanalegt að eiga slæma daga þá er sannarlega óeðlilegt að líða nánast alltaf illa. Þá er orðið nauðsynlegt að leita sér utanaðkomandi hjálpar en það reynist mörgum snúið. Fjölmargir eru of stoltir til að biðja um hjálp og finnst þeir eiga að leysa úr málunum sjálfir. Aðrir er tvístígandi því þeir vita ekki hvort vandamálin sín séu nógu alvarleg. Þumalfingurreglan ætti að vera sú, ef þú ert í efa skaltu óska eftir hjálp. 

Þá er spurning hvar er hjálpina að fá? Við erum hvött til að leita okkur hjálpar en því miður er það oft hægara sagt en gert. Langir biðlistar, skortur á fagaðilum eða himinhár kostnaður eru dæmi um hindranir sem verða á vegi margra. Og þegar einstaklingur hefur þurft að manna sig upp og berskjalda sig með þessum hætti, þá er ansi sárt að lenda á þessum vegg. Einstaklingur viðrar áhyggjur sínar við heimilislækninn og verður settur á margra mánaða biðlista í geðheilsuteymi. Annar einstaklingur leitar á bráðamóttöku geðsviðs vegna yfirþyrmandi vanlíðanar en er sendur heim því legudeildin er full. Og enn annar einstaklingur ákveður að fjárfesta í eigin heilsu og fara til sálfræðings á stofu. Hann fer í nokkra tíma en finnur enga tengingu við sálfræðinginn né efnið sem sálfræðingurinn er að kynna. Það eru þessi augnablik sem eru svo sársaukafull. Það er á þessum augnablikum sem vonin dvínar og manni fer mögulega að líða enn verr en áður.

Hér er tímapunkturinn þar sem þörf er á seiglu. Að halda áfram þó á móti blási. Já, þú baðst um hjálp og er það vel gert. Það virkaði kannski ekki en þá er bara að prófa eitthvað annað. Ekki gefast upp! 

Að finna hjálp sem tengist geðheilsu okkar er nefnilega pínu eins og að kaupa sér gallabuxur. Það er sjaldan sem maður getur gripið fyrstu buxurnar sem maður sér í búðinni, mátað þær og málið er leyst. Yfirleitt þarf maður að gefa sér dágóðan tíma og máta nokkur pör af buxum. Það tekur tíma að finna gallabuxur sem falla vel að líkama okkar en eru þægilegar á sama tíma. Að sama skapi er eðlilegt að við þurfum að máta nokkrar gerðir af aðstoð þegar okkur líður illa. Í langflestum tilvikum þurfa einstaklingar að hitta ólíka fagaðila og prófa mismunandi aðferðir áður en þeir finna eitthvað sem virkar fyrir þá. Vissulega eru margir sem eru ekki hrifnir af því að máta hverjar buxurnar af fætum annarri og það getur tekið verulega á mann. Í þeim tilvikum getur verið góð hugmynd að grípa vin eða fjölskyldumeðlim með sér og þá eru meiri líkur á að maður gangi út með buxur sem maður er sáttur við. Við vitum víst flest að óþægilegar gallabuxur eru ansi óþægilegar! 

*Just because no one else can heal or do your inner work for you doesn’t mean you can, should or need to do it alone* 


UMMÆLI