Prenthaus

Hvað skiptir þig máli?

Hvað skiptir þig máli?

Lovísa Oktovía Eyvindsdóttir skrifar:

Hvað skiptir þig máli og hvernig viltu að framtíð þín og þinna líti út? Ég mæli með að þú setjist niður og hugsir málið, punktir jafnvel hjá þér og setjir fram þína framtíðarsýn.

Þau atriði sem þú punktar hjá þér geta verið stór eða smá, tengd daglegu lífi eða haft áhrif á heildarmyndina. Þú ræður. Það er í raun það besta við kosningaréttinn: þú ræður. Þvílíkt vald! Ég vil hvetja þig til nota kosningaréttinn til að hafa raunveruleg áhrif; mæta á kjörstað 25. september og kjósa þann flokk sem hentar þinni lífssýn, þinni reynslu og þinni sannfæringu best.

Til að koma þér af stað langar mig til að deila mínum lista með þér. Ég skora á þig í leiðinni að gera slíkt hið sama og koma honum á framfæri til okkar. Við í Viðreisn viljum heyra hvað skiptir þig máli.

  1. Ég hef tekið þátt í málefnavinnu í grasrót Viðreisnar í vetur og hef meðal annars beint sjónum mínum að menntamálunum. Ég vil berjast fyrir auknu frjálslyndi innan skólakerfisins, auknu gagnsæi og betra aðgengi kennara að fjölbreyttari námsgögnum. Ég vil valdefla kennara, stjórnendur og nemendur með hugmyndafræði þjónustustjórnunar, auka samstarf og ýta undir samtal á milli stofnana í kerfinu. Nemendur eiga ekki að sitja fyrir framan tölvuskjá með gallað próf fyrir framan sig af því að kerfið er ekki að sinna þeim eins og þeir  eiga skilið. Menntakerfið þarf að vera sveigjanlegt og gefa einstaklingum aukið tækifæri á að nýta sína styrkleika í stað þess að allir eigi að passa í sama box. Þá þarf að gera hreyfingu, tækni- og iðngreinum hærra undir höfði á öllum skólastigum.
  2. Ég tel mig búa yfir aðlögunarhæfni. Meðal annars lagaði ég mig vandlega að opinbera fæðingarorlofskerfinu. Skipulagði barneignir í takti við löggjöfina sem varð til þess að ég eignaðist mitt fyrsta barn að hluta til á öðrum forsendum en mínum eigin. Það er ekki einsdæmi og skapar fjölþættan vanda. Hvatning til barneigna er lítil. Daglega berast sögur af verðandi og nýbökuðum foreldrum sem einfaldlega detta á milli reglugerða. Kerfið segir bara takk, en nei takk. Það er grátlegt, sorglegt og ósanngjarnt. Ég vil berjast fyrir því að fæðingarorlofssréttindi séu barnsins, ummönnunaðilar eiga svo að geta skipt því jafnt á milli sín. Það verður að einfalda og þjónustuvæða fæðingarorlofskerfið með réttindi barna að leiðarljósi.
  3. Eitt af því skemmtilegasta sem ég geri er að versla mat fyrir heimilið. Þegar ég byrjaði keypti ég alltaf það sem var ódýrast, sem þróaðist svo í það að kaupa allt sem heimilismönnum þótti gott. Í dag versla ég sífellt meira af innlendri vöru sem er framleidd í nærumhverfi mínu. Er það bæði hugsað út frá kolefnisfótspori en líka til þess að styðja við hagkerfi Norðurlands. Þessi aukna meðvitund veldur því að ég sé gull alls staðar enda er matvælaframleiðsla er fjölbreytt og öflug á svæðinu. En gæti verið svo miklu, miklu meiri. Víðsvegar um land eru fullkomnar aðstæður til matvælaframleiðslu, t.d. í gróðurhúsum. Bændur sjá sér þó ekki fært að starfa eins og þau hefðu annars burði til. Ég hef talað við garðyrkjubændur sem vildu óska þess að þeir gætu stækkað við sig, eftirspurnin sé næg en það borgi sig samt ekki. Kostnaður og kerfislegar hindranir eru of miklar. Það þarf að auka frelsi landbúnaðar til að stýra sinni framleiðslu, t.d. gefa sauðfjárbændum öflugri verkfæri til að nýta afurð sína betur til þess að ýta undir nýliðun í stað þess að setja þeim stífar skorður. Í mínum augum er málið einfalt. Kerfið á ekki að draga úr vilja og orku einstaklinga heldur ýta undir drifkraft og sýnileika þeirra sem framleiða matvæli. Ég vil framtíð þar sem kröfur neytenda um ferskleika, gagnsæi og fjölbreytileika eru í hávegum hafðar. Ég vil styðja við markaðstorg matvælaframleiðenda og ýta undir nýsköpun og eftirsóknarverða nýliðun í matvælaiðnaði í samkeppnishæfu umhverfi.

Hvernig lítur þinn listi út?

Höfundur er í 8. sæti á lista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó