Hvað varð um fjármunina sem Aðalsteinn gaf börnum í Eyjafirði?

Hvað varð um fjármunina sem Aðalsteinn gaf börnum í Eyjafirði?

Í júní 1952 birtist flennistór frétt í Degi undir yfirskriftinni Vestur-Íslendingur arfleiðir Akureyri og Eyjafjarðarsýslu að meira en 500 þús. krónum. Fénu á að verja til menningarmála í bæ og sveit. Grenndargralinu leikur forvitni á að vita hvernig fjármunum þessum – sem voru umtalsverðir á þessum tíma – var ráðstafað.

Vestur-Íslendingurinn sem um er rætt er Aðalsteinn Kristjánsson, fæddur á Bessahlöðum í Öxnadal árið 1878. Hann flutti með foreldrum sínum að bænum Flögu í Hörgárdal árið 1880 þar sem hann bjó þar til hann settist að í Ameríku um aldamótin. Hann lærði byggingariðn ásamt bróður sínum Friðriki og starfaði sem fasteignasali. Saman stofnuðu þeir bræður fyrirtæki sem skilaði miklum hagnaði. Byggingarmeistarinn Aðalsteinn skrifaði bækur í frítíma sínum, jafnt á íslensku sem ensku. Hann var duglegur að rækta samband sitt við fósturjörðina og heimsótti Ísland árin 1914 og 1917. Árið 1911 kvæntist Aðalsteinn enskri konu að nafni Olive Emely. Þeim varð ekki barna auðið. Við lok fyrri heimsstyrjaldar gekk Aðalsteinn í breska herinn. Hann var sendur í herbúðir en sneri aftur árið 1919.

Ungur að árum fór Aðalsteinn að kenna sér meins sem varð til þess að hann samdi erfðaskrá árið 1926. Hann var þá skilinn við Olive Emely. Samkvæmt erfðaskránni áttu stofnanir í Ameríku að njóta góðs af gjafmildi byggingarmeistarans. Meirihluti eigna hans átti þó að renna til þriggja verkefna á Íslandi þ.á.m. til Háskóla Íslands og „til eflingar skóggræðslu og landbúnaði í Akureyri og Eyjafjarðarsýslu“. Næstu tvo áratugina eða rúmlega svo bjó Aðalsteinn í Bandaríkjunum, n.t.t. í Brooklyn og Los Angeles þar sem hann bjó síðustu æviárin. Aðalsteinn lést í Hollywood árið 1949.

Þremur árum eftir andlátið barst bæjarstjórn Akureyrar bréf, undirritað af hæstaréttarlögmanni. Þar var bæjarstjórnarmönnum gert kunngjört að auk framlags Aðalsteins til skógræktar á svæðinu hefði hann „í erfðaskrá sinni stofnað sjóð til styrktar fátækum börnum hér og er sjóður þessi 18 þúsund dollarar eða um 290 þúsund krónur.“ Þessi höfðinglega gjöf sem Eyfirðingum barst frá Ameríku og Dagur gerði að umfjöllunarefni er einnig nefnd til sögunnar í minningarorðum sem Einar P. Jónsson skrifaði um Aðalstein og birtust í Lögbergi í árslok 1949; „síðast en ekki sízt ber að minnast fyrirmælanna, sem táknrænust eru fyrir innræti og hjartalag gefandans, en þau lúta að stofnun eldtrausts og glæsilegs heimilis í Eyjafirði fyrir munaðarlaus og hjálparþurfa börn, en til þess að koma slíkri stofnun á fót, leggur gefandinn fram höfðinglega fjárhæð“.

Einhver dráttur virðist hafa orðið á því að hugmyndir Aðalsteins kæmust í framkvæmd. Þá vaknar jafnframt upp sú spurning hvort allar fyrirætlanir hans, eins og þær birtust í erfðaskránni, hafi orðið að veruleika. Á heimasíðu Háskóla Íslands, undir liðnum Styrktarsjóðir segir eftirfarandi; „var skipulagsskrá Minningarsjóðs Aðalsteins Kristjánssonar til eflingar náttúruvísindum og efnafræði við Háskóla Íslands ekki staðfest fyrr en 1978“. Þar segir enn fremur að hluti arfsins sem átti að renna til HÍ hafi verið geymdur í Winnipeg allt þar til sumarið 1994 þegar Diane Kristjansson, barnabarn Friðriks (bróður Aðalsteins) kom til Íslands „til að afhenda greiðslu arfsins“. Um svipað leyti afhenti Diane Skógræktarfélagi Íslands þann hluta sem ætlaður var til skógræktar, tæpar 8 milljónir að þávirði – 45 árum eftir dauða Aðalsteins.

Aðalsteinn Kristjánsson átti sér ósk um að styrkja þrjú verkefni á Íslandi að sér látnum. Grenndargralinu er ekki kunnugt um hvað varð um hugmyndina um eldtraust og glæsilegt heimili í Eyjafirði fyrir munaðarlaus og hjálparþurfa börn og/eða fjármuni þá sem Aðalsteinn arfleiddi í þágu þess málefnis. Mögulega var ferð Diane Kristjansson til Íslands árið 1994, þegar hún kom til að afhenda greiðslu arfsins, einskonar uppgjör við óskir Aðalsteins. Ferð til fjár í bókstaflegum skilningi. Getur verið að aðrar stofnanir sem vinna að velferð barna hafi notið góðs af gjafmildi Aðalsteins? Á heimasíðu HÍ segir: „Auk Háskóla Íslands og Skógræktarfélagsins munu samtökin Barnaheill hafa hlotið fjármuni af þessum arfi.“

Heimild: Grenndargralið

UMMÆLI