Prenthaus

Hvenær drepur maður mann?

Hvenær drepur maður mann?

Ég er nýbúin að horfa á sjónvarpsþátt sem ég losna illa við úr huga mér. Um var að ræða þátt úr myndaflokki sem gerist í framtíðinni. Þættirnir nefnast Orville og eru eiginlega grínþættir eða allavega efni sem tekur sig ekki mjög hátíðlega. Í þættinum sem ég sá eru söguhetjurnar staddar í óþekktu samfélagi sem býr við einkennilegt réttarfar. Engir eru dómarar eða lögfræðingar og ekkert réttarkerfi eins og við þekkjum það, heldur er það samfélagið sjálft sem dæmir með því að gefa rautt eða grænt spjald á einhverskonar interneti fyrir hverja athöfn sem meðlimir samfélagsins framkvæma. Grænt spjald fyrir að standa upp fyrir gamalli konu í strætó, rautt spjald fyrir að gera það ekki. Nokkurskonar fullkomið lýðræði. Auðvitað er fyrirkomulagið meingallað þar sem það litast af geðþóttaákvörðunum og tilfinningasveiflum fjöldans þegar kemur að því að dæma fólk. Maðurinn sem stóð ekki upp í strætó, einfaldlega sá ekki gömlu konuna en sannleikurinn má sín lítils fyrir vanþóknun fjöldans.

Minnir þetta ykkur ekki á eitthvað? Mér fannst tilvísunin vera svo augljós að mér rann kalt vatn á milli skinns og hörunds.

Samfélagsmiðlarnir eru dómstóll fjöldans í dag, þar sem allt miðast við að fá „like” eða einhverskonar sýnda velþóknun á orðum sínum eða athöfnum. Athöfnum sem oftar en ekki eru einskonar sýndarveruleiki því hann sýnir það sem við vildum vera en erum líklega ekki nema í huga okkar sjálfra eða á bestu augnablikunum. Rétt lýsing, réttur klæðnaður, hrukkur sléttaðar, bólur fjarlægðar, línurnar lagaðar, svipurinn fullur af kynþokka eða hamingju. Þannig augnablik. Og talandi um augnablik,- við sýnum ekki öll hin, þar sem undirhakan var áberandi, svipurinn aulalegur, við gleymdum að greiða augabrúnirnar eða fela bingóvöðvana. Augnablikin þar sem krakkarnir grenjuðu (nema það hafi verið á einhvern hátt fyndið), augnablikin sem eru bara grá og kámug og hversdagsleg. Þau eru nefnilega líka lífið og það er mjög, mjög hættulegt að ímynda sér að lífið sé alltaf geislandi, fallegt, sexý, bragðgott og nýbakað,- það er bara ávísun á vonbrigði. Það getur líka verið ávísun á það að leita annarra leiða til að finnast lífið alltaf vera frábært, leiða sem verða til þess að fallið á hversdagsplánetuna jörð verður enn hærra og harkalegra.

Dómur götunnar hefur alltaf verið harkalegur og illt umtal hefur alltaf verið til. Þetta er bara orðið mun auðveldara í dag. Að vera hampað á samfélagsmiðlum hefur oft ekkert að gera með sannleikann, Oft er um að ræða ofmat fjöldans á sýndarveruleikanum sem okkur er birtur. Að sama skapi er mjög auðvelt að taka fólk af lífi á samfélagsmiðlum, frysta það úti fyrir litlar eða engar sakir. En hvers virði er að segjast hafa gert eitthvað, birta mynd eða myndband….ef enginn maður skoðar það, horfir á myndina eða það sem verra er, -ef þú færð engin „like”!

Þetta á líka við um okkur sem skrifum pistla og birtum á samfélagsmiðlum. Við erum líka vandlega flækt inn í sama leikinn, við viljum auðvitað að pistlarnir séu lesnir, við erum í raun öll löngu orðin hluti af nýrri þjóðfélagsmynd.

Ég er í mörgum hópum á Facebook og þar af er einn (og reyndar fleiri) sem snýst um fallega og gefandi tómstundaiðju. Varla fer þar fram neitt misjafnt eða hvað? Nýlega setti kona ein inn hugmynd varðandi hópinn, hugmynd sem snerist eingöngu um hennar skoðun á ákveðnu máli en innihélt ekki neitt meiðandi. Viðbrögðin voru samt þannig að það hefði mátt halda að hún hefði boðist til að rasskella landsliðið í fótbolta. Inn kom skriða af athugasemdum, fyrst voru þær saklausar en svo virtist hópurinn færast í aukana, viðbrögðin urðu hatrammari með hverri færslu og urðu loks meiðandi. Konan átti sko bara að hypja sig úr hópnum og ýmislegt í þeim dúr. Þetta hélt áfram þar til loksins að ein rödd bað fólk um að róa sig aðeins niður, þessi kona ætti rétt á sinni skoðun án þess að vera tekin af lífi af hópnum. Við þetta virtust flestir átta sig, einn og einn kom áfram með skot en svo dró úr vitleysunni og þráðurinn dó út. Það var verulega athyglisvert að fylgja þessu eftir og sjá „dómstól fjöldans” taka konu af lífi þótt það væri „bara” á netinu. Það var samt mest hrikalegt!

Það þarf sterk bein til að segja sína skoðun þegar fólk getur átt von á slíkum viðbrögðum en vonandi eru betri tímar framundan. Fleiri og fleiri stíga fram og sýna kjark í því að sýna sitt rétta „sjálf”, gangast við ófullkomleikanum sínum án þess að hampa honum sérstaklega og verða þannig góð fyrirmynd fyrir okkur hin.

Litla röddin í þræðinum hér að ofan er áreiðanlega ekki ein og ef við förum að vera sammála um að frysta ofbeldisseggina eina úti af samfélagsmiðlum, þá er von um betri tíma.

Góðar stundir gott fólk (og vonandi lesið þið pistlana mína).

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó