Hvernig rífumst við?Inga Dagný Eydal skrifar:

Hvernig rífumst við?

Ég er sko ekki sálfræðingur og ekki sérfræðingur í mannlegri hegðun. Mér finnst hinsvegar afskaplega áhugavert að velta fyrir mér bæði eigin hegðun og annarra. Ég á það til að gleyma mér við það að fylgjast með ókunnugu fólki, ekki af forvitni heldur til að spá í það hver tengsl fólksins eru hvort við annað, hvaða hlutverki þau gegna í tilverunni og hvernig þau bregðast við.

Eitt af því sem mér finnst áhugavert er ágreiningur. Ég er að læra það með aldrinum að ágreiningur hefur líklega slæmt orð á sér að ósekju því hann þarf ekki að vera neikvætt fyrirbæri. Ágreiningur getur einfaldlega verið merki um það að við leggjum mismunandi sjónarmið inn í sambönd okkar við aðra og það er í raun mjög áhugavert verkefni að vinna með þessi sjónarmið. Takist okkur vel til þá getum við komist að góðum sameiginlegum niðurstöðum og málamiðlunum sem allir geta unað vel við. Svo auðvitað veljum við okkur orrustur og getum hreinlega valið að vera sammála um að vera ósammála.

Ágreiningur getur hinsvegar verið erfiður og við eigum sannarlega öll það til að nota aðferðir sem skila ekki miklum árangri.. Hér fyrir neðan nefni ég fimm ágreiningstýpur eða aðferðir sem mér hafa reynst sérlega erfiðar á lífsleiðinni hvort sem ég hef dottið í að nota þær sjálf eða aðrir í kringum mig. Þetta er nú kannski meira grín en alvara…og þó.

Predikarinn: Hann reynir að leysa ágreining með því að messa yfir öðrum og er gjarna með vísifingurinn á lofti til að hrinda jafnvel ímynduðum árásum. Algengir frasar:„Heldurðu að ég sé fífl?” og „Ég skal láta þig vita það góða mín….”. Þetta er algengur ágreiningsstíll karlmanna sér í lagi þeirra óöruggu og er gullið tækifæri til hrútskýringa. Þeim sem fara fljótt í predikunarhaminn finnst mjög mikilvægt að þeir séu taldir vita meira um ágreiningsefnið en allur þorri almennings. Þeir hækka fljótt röddina og eru snillingar í að taka andstæðinginn „niður” með því að lítillækka hann. Ákaflega erfitt er að leysa ágreining með þessum einstaklingum jafnvel þótt þeir hafi oft eitthvað til síns máls.

Steinveggurinn: Þessir einstaklingar reyna til hins ítrasta að beita þögninni til að sýna vanþóknun sýna og stýra líðan annarra í kringum sig. Þeir telja sig hafa góða stjórn á tilfinningum sínum og frekar en að þurfa að tala um vanlíðan eða reiði þá þegja þeir, sýna helst ekki svipbrigði og í versta falli láta sig hverfa. Það er eiginlega engin leið til að leysa ágreining með steinveggnum þar sem afneitunin er oft algjör. Algengasti frasinn: „Nei það er sko ekkert að!!”

Hugsanalesarinn: Hann er eiginlega búinn að skilgreina fyrirfram allt sem hinir hafa til málana að leggja og jafnvel búinn að sálgreina þá líka. Enda búinn að lesa margar bækur um efnið. Hann veit hvað hinn er að hugsa og meina, jafnvel þótt hann segi eitthvað allt annað. Hann notar ímyndað innsæi í mannlegt eðli til að hrekja öll rök og fer í krókaleiðir frá umræðuefninu til að koma því að hversu klár hann er í þessum efnum. Hugsanalesarinn hefur ekki tíma til að hlusta því hann er of upptekinn við að upphugsa eigin snilldarlegu athugasemdir.

Íþróttamaðurinn: Hann er ekki að reyna að leysa ágreining, hann er í keppni og vill vinna. Annars þá tapar hann og það líkar íþróttamanninum illa. Því eru flest brögð leyfileg og íþróttamaðurinn oft afburða snjall í að forðast það að leika af sér. Hann viðurkennir ekki málamiðlun heldur bara sigur. Sigurinn er hinsvegar íþróttamanninum oft dýrkeyptur og skaðar samband hans við annað fólk. Algengur frasi: „Þú hefur rangt fyrir þér!”

Grenjuskjóðan: Einstaklingar sem gjarna eiga mjög erfitt með að mæta gagnrýni eða ásökunum frá öðrum og tilfinningarnar bera þá ofurliði. Þeir vilja gjarna ræða málið og segja frá því hvernig þeim líður en geta það ekki þar sem röddin brestur eða tárin byrja að streyma. Með aldrinum skánar þetta hjá sumum en aðrir stríða við það alla æfi að geta ekki tjáð reiði eða erfiðar tilfinningar sökum skorts á sjálfstjórn á þessu sviði. Það er ekki auðvelt að leysa ágreining með þeim sem háskælir og aðeins á færi mjög þroskaðra einstaklinga að standa í slíku með þessu fólki.

Orðhákurinn: Hefur í raun ákaflega gaman af ágreiningi og lítur á hann sem nokkurskonar Morfískeppni eða keppni í rökræðum. Hann elskar að tala og mest að rökræða. Hann vill ekki hækka röddina eða rífast en vill ræða málin til þrautar, hversu langan tíma sem það tekur. Gallinn er sá að hann veit alls ekkert hvenær það hæfir að hætta og viðurkenna að engin sameiginleg niðurstaða sé í sjónmáli. Hann rökræðir því fólk út í horn, króar það af með orðum og uppsker því oft grimmileg viðbrögð. Skilur þá oftast ekki neitt, enda var hann bara að „ræða málin”. Algengur frasi: „Það þarf bara að ræða þetta!”.

Paddan: Sá sem fer alltaf beint í manninn en skautar framhjá málefninu. Pöddur eru oft bæði dómharðar og fordómafullar og gera öll mál persónuleg. Í staðinn fyrir að vera ósammála málflutningi annarra eru eiginlega allir hálfvitar í þeirra augum eða eitthvað þaðan af verra. Munnsöfnuður og andstyggilegheit eru notuð til að koma tilfinningum á framfæri eða kannski helst til að fela eigin vanmátt og tilheyrandi skort á vinsemd og væntumþykju til annarra. Það er bara vonlaust að leysa ágreining með pöddunni, best er knúsa þær duglega í þeirri von að svæla þær út úr kommentakerfunum.

Undirrituð er mjög mikið af orðháknum og töluvert af grenjuskjóðunni. Ég á auðvitað til að næla mér í eitthvað úr öllum hinum flokkunum, það er þó helst að ég verð aldrei nú seint steinveggur því þá þyrfti ég að geta þagað í meira en tvær mínútur í einu. Dagsformið er misjafnt og ekki alltaf sem það tekst að sýna ákjósanleg viðbrögð.

Ágreiningur er hluti af því að vera manneskja og lifa með öðru fólki. Lífið yrði framúrskarandi litlaust ef okkur fyndist alltaf það sama eða okkur liði alltaf eins. Við eigum öll til að nota fyrrgreindar aðferðir í meiri eða minni mæli, oftast af því að tilfinningarnar flæða yfir okkur og við náum ekki að stýra hegðun okkar eða hugsa um hana. Ég trúi því samt að því meira sem við spáum í það hvernig við vinnum með ágreining og bregðumst við honum, því meiri líkur til þess að viðbrögðin okkar geti verið svolítið skynsamleg. Þannig náum við betri árangri í því að ágreiningur verði til góðs.

Gangi okkur öllum sem best!

Inga Dagný Eydal skrifar pistla reglulega sem hún birti á bloggsíðu sinni Ræða og Rit.

UMMÆLI