Múlaberg

Hvetja Akureyringa til að skipta út nagladekkjunum

Hvetja Akureyringa til að skipta út nagladekkjunum

Akureyringar eru minntir á að notkun nagladekkja er almennt bönnuð á Íslandi frá og með deginum í dag, fimmtánda apríl, til og með 31. október nema aðstæður gefi tilefni til annars. Akureyrarbær hvetur íbúa til að skipta út nagladekkjum sem allra fyrst í tilkynningu á vef bæjarins.

„Nagladekk slíta malbiki hraðar en önnur dekk sem hefur í för með sér aukinn viðhaldskostnað. Þau stuðla líka að auknum eldsneytiskostnaði, valda óþarfa hávaða og draga úr loftgæðum.Akureyrarbær leggur sérstaka áherslu á að minnka svifryk og mengun sem af því stafar, til dæmis með því að bleyta götur, hefja sópun gatna fyrr á vorin og þvo þær í ríkari mæli,“ segir í tilkynningu Akureyrarbæjar.

Þrátt fyrir að nagladekk séu bönnuð frá og með fimmtánda apríl ætlar lögreglan á Akureyri ekki að beita sektum fyrr en líða tekur á vorið að því kemur fram í frétt á vef RÚV.

Aðalsteinn Júlíusson, varðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra segir í samtali við fréttastofu RÚV að veðrið geti breyst fljótt og að lögreglan hafi ekki tekið mjög hart á nagladekkjum í apríl.

„Það er bara einfaldlega þannig að aðstæður hérna fyrir norðan hafa verið þannig oft að það hefur kannski éljað á okkur með stuttum fyrirvara og orðið hálka. En þegar það fer að vora svona meira þá reikna ég með að við verðum aðeins fastari fyrir,“ segir Aðalsteinn á RÚV. 

UMMÆLI

Sambíó