Hvetja bæjaryfirvöld að koma upp keiluaðstöðu eftir að Þór tryggði sér sæti í 1. deild

Hvetja bæjaryfirvöld að koma upp keiluaðstöðu eftir að Þór tryggði sér sæti í 1. deild

Keilulið Þórs tryggði sér sæti í 1. deild næsta tímabil eftir sigur á KR-A í umspilsleikjum. Lið Þórs er því komið aftur í deild þeirra bestu í keilunni eftir nokkurra ára dvöl í 2. deild karla. Heimavöllur Þórsara er á Akranesi en Keilusamband Íslands hefur hvatt Þórsara og yfirvöld á Akureyri að koma upp aðstöðu í bænum.

„Þór hefur tilkynnt bæði lið sín áfram næsta tímabil sem er mikið ánægjuefni en það er ekki hægt að taka því sjálfgefnu að aðilar leggi á sig að ferðast frá Akureyri suður á Skagann til að stunda íþrótt. Þessir einstaklingar innan keilunnar hjá Þór eiga mikið hrós skilið fyrir óbilandi áhuga á íþróttinni okkar og fórnfýsi,“ segir í tilkynningu frá Keilusambandi Íslands.

Engin aðstaða hefur verið fyrir keilu á Akureyri síðan árið 2017 þegar Keiluhöllinni við Hafnarstræti var lokað.

„Það væri óskandi ef aðalstjórn Þórs og bæjaryfirvöld á Akureyri legðu saman hönd á plóg við að koma upp aðstöðu fyrir keiluna í heimabæ fyrir sitt fólk. Líta má til þess sem gert hefur verið á Akranesi þar sem bæjaryfirvöld og ÍA tóku hönum saman með þeim sem starfa innan keilunnar með mjög góðum árangri. Nú sem fyrr skorar keilusamfélagið á Íslandi á aðila fyrir norðan að standa með sínu fólki því í þessu vinna allir.“

UMMÆLI

Sambíó