Hvetja yfirvöld til að koma fyrir nauðsynlegum búnaði á Akureyrarflugvelli

Fyrstu farþegarnir sem komu með beinu flugi frá Bretlandi. Mynd: Markaðsstofa Norðurlands.

Breska ferðaskrifstofan SuperBreak hefur hafið beint flug frá Bretlandi til Akureyrar. Akureyrarflugvöllur hefur í kjölfarið verið töluvert í umræðunni en aðstaðan þar er ekki talin nægilega góð. Á mánudag þurfti flugvél á vegum Super Break að lenda í Keflavík eftir þrjár misheppnaðar tilraunir til þess að lenda á Akureyrarflugvelli.

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir að fullnægjandi aðflugsbúnað vanti á flugvöllinn og hann sé forsenda fyrir því að fleiri flugfélög komi til Akureyrar. Fullnægjandi aðflugsbúnaður hefði sennilega tryggt lendingu á mánudag.

Nú hefur Ferðamálafélag Eyjafjarðarsveitar sent frá sér yfirlýsingu þar sem samgönguyfirvöld eru hvött til þess að koma nauðsynlegum tækjabúnaði fyrir á Akureyrarflugvelli þegar í stað sem tryggi öruggt aðflug að vellinum úr báðum áttum.

„Í dag er ferðaþjónustan á Íslandi að þróast í tvö svæði sem stöðugt gliðnar á milli. Annars vegar „heita svæðið“ Suður- og Vesturland og hins vegar „kalda svæðið“ Vestfirðir, Norðurland og Austurland. Í ljósi breyttrar ferðahegðunar erlendra ferðamanna er ljóst að VNA-svæðið nær ekki til sín þeirri aukningu sem greina má á SV-svæðinu, heldur hafa gistinætur frekar dregist saman,“ segir í yfirlýsingunni.

„Til að sporna við þessu er eitt stærsta hagsmunamálið að fá inn á svæðin beint áætlunarflug frá útlöndum. Að því hefur verið unnið hér á Norðurlandi í mörg ár og því skýtur það skökku við að loksins þegar úr fer að rætast skuli samgönguyfirvöld ekki standa betur að málum og tryggja að allur nauðsynlegur búnaður sé til staðar. Það er engu líkara en þau hafi sofið á verðinum.

Við hvetjum samgönguráðherra til að bregðast við þegar í stað og tryggja að Akureyrarflugvöllur verði fullbúinn tækjum og mannvirkjum til að hægt verði að efla ferðaþjónustuna á svæðinu.
Stjórn Ferðamálafélags Eyjafjarðarsveitar.“

Sambíó

UMMÆLI