Í fangabúðum fasista í þrjú ár

Í fangabúðum fasista í þrjú ár

Óhætt er að segja að Kristín Björnsdóttir frá Litlu-Giljá í Húnavatnssýslu hafi átt viðburðaríka ævi. Kristín fæddist 1. júní árið 1909 en hún lést 11. október árið 1994. Kristín var ógift og barnlaus.

Árið 1967 tók Margrét Bjarnason viðtal við Kristínu sem birtist í tímaritinu Hrund þá um vorið. Margrét var ritstjóri tímaritsins. Í viðtalinu segir Kristín frá viðburðaríkri ævi úti í hinum stóra heimi um miðbik 20. aldarinnar. Sagnalist rifjar upp rúmlega 50 ára gamla frásögn Kristínar, skráir og miðlar til nýrra kynslóða lesenda.

„Þegar Ísland gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum haustið 1946 var þar þegar starfandi fulltrúi íslenzku kvenþjóðarinnar, Kristín Björnsdóttir. Hún starfar þar enn í dag og veitir nú forstöðu þeirri skrifstofu samtakanna, sem sér um, að allar fréttir, skjöl og aðrar upplýsingar um starfsemi þeirra séu sendar út um heim.

Kristín hefur á þessum rúmlega tveimur áratugum átt þess kost að fylgjast gjörla með öllum helztu deilumálum á alþjóðavettvangi — verið með fingurgómana á slagæð heimsmálanna, eins og sagt er. En hún hefur líka séð, hvernig hinar háleitu hugsjónir, sem mörkuðu stefnu og störf samtakanna í upphafi, hafa velkzt í hafróti milliríkjaátaka og stjórnmálaþrefs hversdagsins.

Kristín Björnsdóttir kom fyrst til Sameinuðu þjóðanna á vegum stórfyrirtækisins International Business Machines — IBM, því að hún seldi vélar þess til samtakanna. Hún hafði unnið hjá IBM í nokkra mánuði – gengið á skóla fyrirtækisins og átti þar vísa góða framtíð — ,,en Sameinuðu þjóðirnar höfðu að stefnumiðum allt, sem ég trúði á“, segir Kristín ,,og því féll ég fyrir þeirri freistingu að fara að vinna hjá þessari göfugu stofnun“.

Það er glettni í brosi og augum Kristínar, er hún segir þetta, en alvaran ekki langt undan, því að hún lítur niður hálf döpur í bragði og bætir við: „Sameinuðu þjóðirnar hafa mikið breytzt á þessum tveimur áratugum, ótrúlega mikið breytzt. Það veitti ekki af að skara ofurlítið í glæður þeirra hugsjóna, sem loguðu svo glatt í upphafi“.

Kristín kom til New York frá Ítalíu í lok heimsstyrjaldarinnar síðari 19. maí 1945 með fyrsta herskipinu, sem þangað kom eftir stríðið. Á því voru sex konur og um sex þúsund karlmenn. „Ég hef aldrei séð eins marga fætur saman komna á einum stað“ sagði Kristín og hló við, „hermennirnir lágu um allar þiljur berfættir, fótur við fót. Mér hefur sjaldan þótt fætur fallegir og þótti alveg nóg um“.

Tilviljunin hagaði því svo, að varaforseti IBM, kona að nafni Ruth Leach, hafði kynnzt Kristínu á Ítalíu, er hún starfaði sem túlkur með bandaríska hernum. Hún sagði forseta fyrirtækisins, Thomas J. Watson, frá þessari íslenzku stúlku og ýmsu því er hana hafði hent þar suður frá. Þegar svo Kristín kom til New York, gerði hann henni þegar boð „og áður en ég vissi af, var ég komin á skóla IBM í Endicott til þess að læra á og selja IBM-vélar. Ég á mynd af mér með herra Watson frá því ég brautskráðist frá skólanum. Hann var mér afskaplega góður og sagði, að Ísland ætti að verða sitt 80. viðskiptaland, ég ætti að opna þar skrifstofu. Svo vildi hann endilega, að ég héldi stutta ræðu en ég gat lítið sagt, annað en að ég hefði nú alltaf verið montin af mínu landi — sennilega alltof montin — en nú fyndist mér eiginlega að landið mitt gæti í fyrsta sinn verið montið af mér, úr því að ég komst í gegnum þennan skóla. Hann var óskaplega erfiður og ég, sem skildi ekkert í reikningi“.

Dvöl Kristínar í Bandaríkjunum og starf hennar hjá IBM og Sameinuðu þjóðunum væri í sjálfu sér fyllilega nægilegt efni í blaðagrein — og vel það — en áður en hún kom þangað, höfðu þeir atburðir gerzt í lífi hennar, sem fáir Íslendingar ef nokkrir hafa lifað og mig fýsti mjög að heyra frásögn hennar af þeim.

Í þúfunum hafði ég mitt hugarflug

Ég vissi það eitt, að hún hafði lent í fangabúðum fasista á Ítalíu og ekki alltaf átt sjö dagana sæla og þegar ég á dögunum frétti, að hún hefði komið í stutta heimsókn til Íslands, fór ég þess á leit við hana, að hún segði mér meira frá þessum tíma. Hún varð við þeirri beiðni og dag einn, er úti geysaði stormur og hríðarbyljir dundu á gluggum, sátum við saman í hlýrri og notalegri stofu vestur á Högum og hún sagði mér undan og ofan af því, sem á daga hennar hafði drifið, þar til hún kom til Bandaríkjanna í lok styrjaldarinnar.

Hún fæddist að Litlu-Giljá í Húnavatnssýslu og ólst þar upp til níu ára aldurs með móður sinni. Faðir hennar féll frá, er hún var aðeins hálfs annars árs og varð móðirin því ein að berjast fyrir því að koma börnum sínum á legg.

Litla-Giljá var afskaplega fallegur staður, sagði Kristín. Nú er búið að breyta þar öllu og tún öll orðin slétt, en eitt af því, sem mér þótti vænzt um í gamla daga, var þúfuskák skammt frá bænum. Pabbi hefur líklega ekki haft efni á að slétta hana. í þessum þúfum hafði ég allt mitt hugmyndaflug — þar bjó ég mér hýbýli, fínar stofur og glæsilega ganga. Já, mér þótti vænt um þúfurnar og ána, Giljá heitir hún og eyrarrósir uxu þar á bökkum. Þar veiddum við smásíli.

Ég hugsa, að ég hafi verið alin ofur eðlilega upp, ef frá er skilið föðurleysið. Móðir mín var dugleg kona og skynsöm, að ég held. Hún hafði verið alin upp að miklu leyti hjá frú Þóru Melsted og bjó að því. Eftir nokkur ár á Litlu-Giljá seldi móðir mín jörðina og við fluttumst til Blönduóss. Síðan lá leiðin suður og þegar ég var fimmtán ára, fór ég að vinna hjá Landssímanum. Ég var víst nokkuð ung þá, en Hlíðdal, símstöðvarstjóri, gerði undantekningu fyrir mig. Þar fékk ég eiginlega mitt uppeldi sem ung stúlka.

Vann fyrir sér sem módel í London 1934

En ég kunni aldrei vel við mig í Reykjavík og fór alltaf á sumrin norður að Víðimýri í Skagafirði, til systur minnar, sem þar var gift. Þar leið mér alltaf ákaflega vel en ég fór alltaf suður aftur á haustin. Að vísu með þungu hjarta. Auðvitað sagði ég engum, hvað mér var það þvert um geð, ég vissi sem var, að ég gat ekki setið og passað símann á Víðimýri allt mitt líf eða dælt benzíni á bíla.

Hvenær fórstu fyrst utan, Kristín?

Þegar ég var 23 ára fékk ég ársfrí hjá Landssímanum og fór til Englands. Þar vann ég tvær klukkustundir á dag sem módel í London — í fötum þó, bætti hún við kímin. Fyrir það fékk ég meira kaup en ég hafði heima. Ég reyndi auðvitað að læra enskuna sem bezt og gætti þess vandlega að hitta ekki íslenzka vini og kunningja nema einu sinni í viku, hvað sem mig langaði til þess.

Opnaði talsambandið við útlönd

Um þessar mundir bar svo við hér heima, að opna átti talsambandið við útlönd. Var þá ákveðið, að ég færi á talstöð í London til að læra starfið. Þar var ég í tvo mánuði og þá var það, sem ég byrjaði að reykja, skýtur hún inn í, um leið og hún kveikir sér í sígarettu — þú skilur, innan um alla þessa eldri menn, sem allt vildu kenna mér. Hún dregur djúpt að sér og heldur áfram: Svo fór ég heim og opnaði talstöðina. Það var mjög gaman, þá var ég þar aðal manneskjan um nokkurn tíma.

En þú hefur ekki haft langa viðdvöl heima ?

Nei, árið 1937 má heita, að ég hafi farið alfarin að heiman. Ég hef að minnsta kosti ekki verið á Íslandi vetrarlangt síðan. Ég man, að systur minni fannst þetta auðvitað ekki mikið vit, en ég spurði hana þá, hvað ég ætti að gera. Nú væri ég komin á hæstu laun hjá Símanum og ætti ekki annað fyrir höndum en halda þar áfram. Mér fannst það ekki ýkja spennandi.

Og hvert lá þá leiðin?

Fyrst til Frakklands, þar sem ég vann við að gæta barna. Hjá ágætri konu, einhverri beztu manneskju, sem ég hef kynnzt. Ég hef verið afskaplega heppin í lífinu að kynnast mörgu góðu fólki, sem hefur viljað allt fyrir mig gera.

Og síðan til Ítalíu?

Nei, þangað kom ég ekki fyrr en í stríðsbyrjun og var þá búin að ferðast dálítið um Evrópu.

Þeir buðu gull og græna skóga

Þegar Kristín hóf frásögn sína af Ítalíudvölinni sagði hún: Þetta er í rauninni svo ákaflega löng og flókin saga, að óhugsandi er að segja frá öllum atriðum. Á þessum árum gerðist svo margt. Nánar gætur voru hafðar á öllum og Þjóðverjar lögðu net sín allsstaðar.

Þeir höfðu fyrst samband við mig 1. júní 1940. Mér er það svo minnisstætt, því að það var afmælisdagurinn minn. Náungi nokkur kom að máli við mig og sagði, að Þjóðverjar hefðu mikinn áhuga á því að senda mig til Alexandríu til að njósna fyrir þá, aðallega um flug og flugvelli.“

Frásögn Kristínar má lesa í heild sinni á Sagnalist.is.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó