„Í myrkri eru allir kettir gráir“

„Í myrkri eru allir kettir gráir“

Elsa María Guðmundsdóttir skrifar

Leikverkið í „Í myrkri eru allir kettir gráir“ var frumsýnt á dögunum í Hlöðunni, Litla Garði rétt fyrir utan Akureyri. Um er að ræða tvo einþáttunga sem leikhópurinn „Umskiptingar“ standa að í leikstjórn Jennýar Láru. Leikkonurnar Margrét Sverrisdóttir og Sesselía Ólafsdóttir leika sitt hvorn einleikinn sem þær hafa sjálfar samið.

Fyrri hluti nefnist „Heimþrá“ og þar leikur Sesselía háskólanemann Öldu sem vinnur að lokaritgerð til meistaragráðu við Háskólann á Akureyri. Hluti af ritgerðinni er að taka viðtöl við flóttafólk. Verkið fjallar að mestu um ákveðið innra samtal sem Alda á í kjölfar frásagna flóttafólksins, sem eru mjög persónulegar og nöturlegar lýsingar á aðstæðum fólks í stríðshrjáðu landi. Þessu eru gerð afar falleg skil í verkinu og nálægð frásagnanna er áþreifanleg með einföldum videóverkum af andlitum flóttamannanna sem birtast í leikmyndinni meðan farið er með textann. Afar fallegt, áhrifamikið og vel leyst. Sesselía á mjög góðan leik, túlkar vel hina brothættu Öldu sem meðfram vinnu við ritgerðina, vinnur úr áfalli úr æsku. Skemmtilegar lausnir eru á ýmsu í verkinu,  sýrlenskir flóttamenn ljá persónum raunveruleg andlit og skapaðar eru aðstæður á sviðinu með mjög einföldum en áhrifaríkum útfærslum. Í heild er verkið mjög vel heppnað, áhugavert og áhrifaríkt. Undir lok verksins var ekki laust við að tár sæist á hvarmi.

Seinni hluti sýningarinnar er einleikur Margrétar Sverrisdóttur sem hún nefnir „Líf“. Í þessu verki er sleginn allt annar tónn, við fáum sögu og sjónarhorn Sissu sem á þann draum heitastan að endurvekja skammvinna frægð á unglingsárum, þegar hún sló í gegn með vinsælum einsmellungi. Hún lýsir kaótískri tilurð lagsins, vonbrigðum og slæmum samskiptum við aðra í bandinu. Sissa er komin á miðjan aldur, lífið hefur ekki verið henni einfalt og allt bendir til þess að hún hafi sífellt lent í því að aðrir hafi tekið frá henni það sem henni bar. Það finnst henni að minnsta kosti. Margrét fer á kostum sem Sissa, hressa gellan sem gerir lítið úr skakkaföllum, börnin sem hún hefur eignast eiginlega bara þvælst fyrir og svo finnst henni að frægðin hljóti að bíða hennar við næsta fótspor. Hún leggur allt undir í leitinni að frægðinni. Verkið er í heild sinni svolítill farsi, auðvelt að hlæja svolítið að Sissu, en undir niðri krauma mikil vonbrigði og reiði í bland við vænan skammt af kaldhæðni. Að lokum er ljóst að Sissa svífst einskis til að öðlast þá frægð sem hún telur sig eiga rétt á. Margrét býr til afar trúverðuga persónu, hún á létt með að galdra fram kaldhæðnislegt grín í bland við frekar sorgleg örlög Sissu.

Mjög skemmtilegt og áhrifaríkt verk, sem kallar fram hlátur í bland við vorkunnssemi.

Tónlist í verkinu er eftir Eggert Hilmarsson og texti eftir Kristrúnu Eyjólfsdóttur. Eyþór Alexander Hallson og Sindri Swan sjá um frameiðslu og tækni í verkinu.

Þessi tvö verk eru afar ólík, hvort með sinn karakterinn má segja. Það sem undirritaðri finnst standa uppúr er góður texti, góð persónusköpun og aðdáun á þessum tveim frábæru leikkonum sem standa einar á sviðinu.

Mæli hjartanlega með þessari sýningu, skemmtileg, áhugaverð og hér gefst tækifæri til að sjá fagmannlegan einleik á skemmtilegu sviði í tryggri leikstjórn Jennýar Láru.

Næstu sýningar á verkinu verða 30. Sept og 1. Okt, miða má nálgast á tix.is.

Höfundur er sjónlistakennari með Meistaragráðu í menningarstjórnun

Sambíó

UMMÆLI