Imperial fagnar 15 ára afmæli

Imperial fagnar 15 ára afmæli

Imperial, ein vinsælasta tískuvöruverslun Akureyrar um árabil, fagnar 15 ára afmæli um þessar mundir.

„Föt eru svolítið eins og matur, þau eru manninum lífsnauðsynleg og geta eins og maturinn haft mikil áhrif á líðan fólks. Fyrir mér hefur þetta alltaf snúist um það að gleðja viðskiptavininn og gera það vel. Þetta starf er ekki vinna í mínum huga heldur hrein ástríða og áhugamál. Það veitir mér mikla gleði ef ég get látið viðskiptavin labba ánægðan út úr búðinni. Að hjálpa fólki við að finna góðar gallabuxur eða aðra flík sem það er ánægt með, það er mómentið sem gefur mér allra mest í þessum rekstri,“ segir Halldór Magnússon, eigandi Imperial í samtali við heimasíðu Glerártorgs.

Halldór, sem gengur iðulega undir nafninu Dóri, hefur lifað og hrærst í tískubransanum í rúmlega 25 ár en áður en hann opnaði Imperial starfaði hann hjá NTC veldinu í Reykjavík og hjá Gallerí Akureyri. Undir niðri kraumaði þó draumur um eigin verslun og sá draumur varð að veruleika fyrir 15 árum. Þá var nýbúið að byggja við Glerártorg og Dóri greip tækifærið og var fyrstur til að tryggja sér verslunarpláss í nýrri álmu. „Mörgum fannst þetta alveg galin hugmynd, að opna 200 fm tískuvöruverslun á Akureyri, sem var mjög stórt á þeim tíma,“ rifjar Dóri upp.

Bæði Levis og Benetton voru þá með verslanir á Akureyri og eigendur Gallerí voru með einar fimm tískuvöruverslanir í bænum svo Dóri segist hafa þurft að finna sína sérstöðu. „Að vera kaupmaður gengur út á það að vera sniðugur og útsjónasamur. Ég fór því strax að hugsa hvar væri gat á markaðinum. Á Akureyri á þessum tíma var varla hægt að kaupa kjól nema í kringum jólin svo ég ákvað að verða bestur í kjólum. Ég tel að þetta viðhorf hafi verið mjög klókt og ég hef haft það að leiðarljósi í gegnum minn rekstur, þ.e.a.s. að verða góður á þeim sviðum sem aðrir hafa ekki verið að sinna.“

Aðspurður um framhaldið þá er ljóst að Dóri er hvergi nærri hættur í tískubransanum. Hann segist gjarnan vilja sjá Imperial halda áfram að blómstra á Glerártorgi enda séu þar tækifæri til vaxtar. „Mig langar til þess að stækka skart- og fylgihlutadeildina um 500%. Þá vil ég bjóða upp á enn meiri breidd í gallabuxnadeildinni með því að bæta við nýjum merkjum. Eins sé ég fyrir mér að styrkja herradeildina sem á mikið inni. Þá hef ég undanfarið svo til eingöngu einbeitt mér að versluninni á Glerártorgi en næsta mál á dagskrá er að styrkja netverslunina“,“ segir Dóri þakklátur fyrir árin 15 á Glerártorgi.

Nánar á Glerártorg.is

Sambíó

UMMÆLI