NTC netdagar

Ingunn Fjóla opnar sýninguna Í sjónmáli í Menningarhúsinu Hofi

Mynd: Daníel Magnússon

Laugardaginn 17. mars kl. 14.00 opnar einkasýning Ingunnar Fjólu Ingþórsdóttur, Í sjónmáli, í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Sýningin samanstendur af stórri vegginnsetningu auk minni málverka sem spila á mörk hins tvívíða og þrívíða. Með efnisvalinu vísa verkin á mismunandi hátt í stöðu sína sem málverk. Áhorfendur eru gerðir meðvitaðir um líkama sinn í rýminu og afstöðu til verkanna, sem breytist eftir sjónarhorni hvers og eins.

Ingunn Fjóla (f. 1976) hefur lengi fengist við málverkið og þá sérstaklega samtal þess við rýmið. Hefur hún beitt ýmsum aðferðum til að umbreyta rýminu, ýmist með því að þenja málverkin út í rýmið eða byggja þrívíðar innsetningar sem áhorfandinn gengur inn í. Ingunn Fjóla útskrifaðist með MA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands vorið 2017, en hún útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá sama skóla árið 2007. Áður hafði hún lokið BA prófi í listasögu frá háskólanum í Árósum. Verk Ingunnar Fjólu hafa verið sýnd víða í söfnum og galleríum. Þar ber helst að nefna einkasýningar í Hafnarborg, Gallerí Ágúst og Cuxhavener Kunstverein auk fjölda samsýninga innanlands og erlendis.

UMMÆLI

Sambíó