Origo Akureyri

Innleiðingu á nýju leiðaneti SVA frestað

Innleiðingu á nýju leiðaneti SVA frestað

Umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar samþykkti á fundi sínum, þann 25. júní síðastliðinn, að fresta innleiðingu á nýju leiðaneti Strætisvagna Akureyrar til 1. ágúst 2022. Innleiðing kerfisins átti að byrja í júní 2021.

Samkvæmt fundargerð Umhverfis- og mannvirkjaráðs er ekki talið raunhæft að innleiða nýtt leiðanet fyrr vegna rekstrarkostnaðar. Þá segir að „útfæra þarf vaktaplan í ljósi vinnutímastyttingar og kostnaðaráætlun við nýtt kerfi í heild sinni, en forsenda fyrir þróun á nýju kerfi var á sínum tíma að ekki yrði aukning á rekstrarkostnaði. Kanna þarf betur ýmsar útfærslur á leiðakerfinu áður en til innleiðingar kemur“.

Sjá einnig: Íbúar í Giljahverfi ósáttir með nýtt leiðanet Strætó

Undirbúningur verkefnisins hófst í lok árs 2019 með gagnasöfnun og hófst formleg vinna við mótun á nýju leiðaneti í september 2020. Fyrstu tillögur að nýju leiðaneti voru kynntar í október sama ár og hófst þá víðtækt kynningar- og samráðsferli sem leiddi af sér hátt í 200 ábendingar. Nýtt og endurskoðað leiðanet var kynnt í mars 2021 og hafði þá verið tekið tillit til meginþorra þeirra athugasemda sem bárust.

Markmið með endurskoðun leiðakerfisins er að koma til móts við óskir íbúa um betra og skilvirkara kerfi. Horft hefur verið til þess að einfalda kerfið og auka tíðni með styttri ferðum og beinum leiðum. Þannig er markmiðið að þjónusta fleiri íbúa og auka notkun strætó sem hefur dvínað á undanförnum árum. Einnig er markmiðið með nýju leiðakerfi að minnka bílaumferð og stuðla þannig að jákvæðum umhverfisáhrifum.

Frekari upplýsingar um nýja leiðanetið má finna á síðu Akureyrarbæjar með því að smella hér.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó