Íslandsmeistararnir heimsækja KA um verslunarmannahelgina

KA-menn mæta FH um verslunarmannahelgina

Búið er að færa leik KA og FH í Pepsi-deild karla í fótbolta sem upphaflega átti að fara fram sunnudaginn 30.júlí. Ný dagsetning er laugardagurinn 5.ágúst.

Liðsmenn knattspyrnuliðs KA fá því ekkert frí um verslunarmannahelgina líkt og hefur tíðkast hjá íslenskum knattspyrnuliðum í gegnum árin en KA leikur þétt í kringum verslunarmannahelgina því þeir heimsækja Fjölnismenn í Grafarvoginn þriðjudaginn 8.ágúst.

Ástæða breytingarinnar er sú að Íslandsmeistarar FH eru að keppa í forkeppni Meistaradeildar Evrópu.

Í frétt á Fótbolti.net segir að oftast hafi verið frí í Pepsi-deildinni um verslunarmannahelgina en vegna þátttöku liða í Evrópukeppni hafa stundum farið fram leikir á þessum tíma. Þar má nefna eftirminnilegan leik ÍBV og FH árið 2013 þar sem um það bil 4000 áhorfendur mættu á völlinn.

Það má ætla að mikill fjöldi fólks sækji Akureyri heim á Eina með öllu og íslensku sumarleikana þessa helgi og því kjörið tækifæri fyrir KA-menn að reyna að troðfylla Akureyrarvöll.

UMMÆLI