Ítrekað send heim með blóðtappa í heila

Aldís Björk skrifar

Aldís Björk Benjamínsdóttir, 25 ára Haugnesingur sem búsett er á höfuðborgarsvæðinu skrifaði í gærkvöldi ansi áhugaverða færslu á Facebook þar sem hún segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við heilbrigðiskerfið. 

Við fengum góðfúslegt leyfi Aldísar til að birta færsluna í heild en hana má lesa hér að neðan.

Þetta heilbrigðiskerfi okkar er að drukkna!
Ég veit fullvel að ég er alls ekki sú fyrsta sem segi þetta eða komi með dæmi, en hérna er mitt :
Sumardaginn fyrsta (20.apríl) fann ég fyrir máttleysi i hægri hendi, ég hafði ekki miklar áhyggjur svo ég ákvað að bíða aðeins með að láta kíkja á það. Daginn eftir – föstudaginn 21.apríl var ég orðin alveg máttlaus í hægri hlið líkamans s.s hendi og fæti og svimaköstin komu og fóru. Mér leist ekki alveg á blikuna og eftir smá þrjósku rifrildi við sjálfa mig ákvað ég að fara á bráðamóttöku Landsspítalans þar sem mér var skutlað upp í rúm inni í herbergi þar sem sirka 10 manns lágu saman, allir með mjög ólíka sjúkdóma og kvilla. Starfsfólkið var á hlaupum allan tíman að drukkna í vinnu en náðu ótrúlega vel að fela álagið sem var á þeim og halda andliti, alveg ótrúlega vingjarnleg og dásamleg í framkomu.
Tekin var blóð-og þvagprufa, eitt taugapróf sem snérist um hversu liðug og flink ég er. Svo var ég send heim með þær upplýsingar að þetta væri einhversskonar gigtarkast og ég ætti að panta mér tíma hjá gigtarlækni.
Laugardaginn 22. apríl var ég rosalega máttlaus og slöpp, ég lagði mig í rúman klukkutíma. Ég vaknaði með rosalegan svima og frekar rugluð, stóð upp og hrundi í gólfið þar sem ég lá meðvitundarlaus í allt of margar mínútur og ekkert samband náðist við mig. Gyða mín hringdi þá á sjúkrabíl þar sem henni leist ekkert á blikuna. Í bílnum á leiðinni uppá sjúkrahús ranka ég við mér alveg í ruglinu.
AFTUR var ég komin upp í rúm í sama litla herbergi, í von um að fá einhver svör, en eftir 2 klukkutíma var engin búin að kíkja á mig eða heilsa mér. Gyða fór þá á stjá og bað um lækni, frekar erfitt reyndist að finna þá þar sem allir voru á hlaupum og bráðamóttakan full af fólki. Tekin var blóðprufa og vökvinn streymdi inn um æðalegginn, Gyða kletturinn minn var með mér hverja einustu mínútu og kom sér vel fyrir uppi í rúmi hjá mér (sumu starfsfólki ekki til mikillar gleði) en hvað með það.
Niðurstaða : Ég send heim og sagt að panta tíma hjá gigtarlækni. – JÁ svo má auðvitað ekki gleyma reikningum sem beið mín, þetta var frekar dýr vökvi verð ég að segja.

Sagan er sko ekki búin !!
Á mánudeginum reyndi ég að panta mér tíma, en NEI hvergi hægt að fá tíma nema vera með beiðni frá lækni, hún var auðvitað ekki græjuð á Landspítalanum. Þarna var mælirinn minn aaaalveg að fyllast.
En jæja, ég hringdi í minn dásamlega heimilislækni á Dalvík sem sendi beiðni og þá gat ég sko farið að vonast eftir að fá tíma. Viku seinna var mér boðið að hitta gigtarlækni, ég þáði það með þökkum og mætti á hárréttum tíma og svo sannarlega tilbúin að gleypa í mig visku og svörum af hverju líkaminn var að haga sér svona furðulega. Þessi ágæti læknir átti greinilega ekki mjög góðan dag því hann var sko ekki hrifinn af mér þarna, skilaboðin frá honum: ég er móðusjúk og eigi að klæða mig vel og passa að mér verði ekki kalt!! Og svo var hann tilbúinn að kveðja.
Þarna var mér NÓG BOÐIÐ, vitandi það að enn einn reikningurinn biði mín frammi og ekkert svar. Ég lét aðeins í mér heyra, sagðist vera orðin þreytt á að fá ekki nein svör og þetta væri ekki boðlegt! Orðrétt sagði hann við mig „ég get alveg sent þig i myndatöku á höfðinu“ ég játaði því bara svona til að útiloka ALLT!
Ókei hún búin og ég fer fram, set upp gervibros og BORGA ! Ég brunaði heim og bugaðist, grét eins og ungabarn og fannst ég virkilega niðurlægð. Þarna sagði ég við mig að ég væri hætt að ganga á eftir þessu, það væru engin svör í boði og ég borga ekki fólki til að koma svona fram við mig !
Ég skundaði i vinnuna og sirka 5 klst eftir myndatökuna þegar ég var stödd í röð í bónus hringdi síminn, læknirinn sem ég hafði hitt um morguninn kynnti sig og sagði að búið væri að lesa úr myndunum og þar sást blóðtappi í heila. HA? ÉG? HA? Svo sagði hann “ hringt verður í þig á næstu dögum og þú færð tíma i nákvæmari myndatöku“. UUU OK takk og bless. Þetta var ekki persónulegra en svo, þarna stóð eg í röð í bónus að reyna að melta þessar upplýsingar og halda andliti.

Tveir dagar liðu og ekkert símtal, þá hringdi ég. Var send 3x a milli deilda og á endanum sagt að ég þyrfti að hringja á annan stað til að fá tíma í myndatöku.
Ég: okei, en getur einhver sagt mér eitthvað ? Hvernig tappi? Hvar er hann? Er hann stór ? Má ég gera allt ? Er ég í hættu?
Á hinni línunni : ég veit ekki, þú þarft að spurja þinn lækni.

ÞARNA VAR ENGINN LÆKNIR AÐ SJÁ UM MITT MÁL OG HALDA UTAN UM MIG! Er ég ekki mikilvæg? Er ég enn einn dauði hluturinn á færibandinu? Á ég bara að halda áfram mínu lífi og bíða eftir símtali fra ykkur ?
Eftir símtal númer 3000 fékk ég loksins tíma í þessa myndatöku sem átti að svara öllu. Þarna var ég farin að vona að tækin myndu tala við mig þar sem engin læknir virtist geta það!
Ég ákvað að skella mér norður í 2 daga slökunarferð til að kúpla mig út og safna smá orku.
Sunnudaginn 14. maí fór ég í segulómunina, daginn eftir fékk ég símtal með niðurstöðu = Blóðtappi í heila og einhversskonar drep byrjað að myndast.
„Hringt verður í þig á næstu dögum, þér gefinn tími hjá taugalækni og ákvörðun tekin um framhald“

Mamma Rósa Kristín kom með fyrsta flugi i gærmorgun og við eyddum deginum í að bíða við símann en ekkert símtal !
Heimilislæknirinn minn á Dalvík hringdi þá upp á Landspítala og við áttum að mæta á slysadeild kl 10:30 í morgun (17.maí) sem við gerðum samviskusamlega. ENN OG AFTUR var ég mætt i sama herbergið! Dagurinn í dag fór í rannsóknir og var ég þar í 9 klst og svo á ég að mæta aftur á morgun í frekari rannsóknir.

Vert er þó að taka það fram að aðeins EINN læknir talaði við mig á jafningja leveli! Leyfði mér að tuða smá, spurja og hún hafði fulla þolinmæði fyrir mér. Það er minn læknir á Dalvík, tæpa 400 km í burtu og ekki með aðgang að mínum gögnum sem eru i Reykjavík.

Sambíó

UMMÆLI