Þór og KA mættust í lokaleik tímabilsins í Olís deild karla í handbolta í gær. Þórsarar voru þegar fallnir úr deildinni fyrir leik en KA menn eru á leið í úrslitakeppni Íslandsmótsins. Eins og við mátti búast var þó hart barist eins og er yfirleitt þegar þessi tvö lið mætast.
Leiknum lauk með 19:19 jafntefli en undir lok leiksins var mikil dramatík. Í síðustu sókn leiksins náði Þórður Tandri Ágústsson, leikmaður Þórs að skora en dómarar leiksins dæmdu á eitthvað og markið fékk ekki að standa. Þórsarar voru ekki sáttir með dóminn og þurfti til að mynda að vísa einum stuðningsmanni úr húsi.
„Mikill hasar var í leiknum undir lokin og allt ætlaði um koll að keyra þegar mark var dæmt af Þór í stöðunni 19:19. Okkar menn voru vægast sagt ósáttir enda virtist markið vera fullkomlega löglegt, en enn og aftur sannaðist það að ekki tjóir að deila við dómarann,“ segir um atvikið á vef Þórsara.
KA enduðu í sjötta sæti í deildinni og nú hefst undirbúningur fyrir úrslitakeppnina. Þórsarara luku keppni í ellefta eða næst síðasta sæti og munu spila í Grill 66 deildinni næsta vetur.
UMMÆLI